135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:59]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður nefndi. Ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður sagði. En mig langar sérstaklega að taka undir með honum í þessu samhengi, ég held að það sé kórrétt hjá hv. þingmanni, að Alþingi hefur ekki markað þann ramma sem þarf að marka varðandi orkulindir í landinu og auðlindir. Ég held að það sé afar mikilvægt að þingið taki um þau mál vandaða umræðu svo málunum verði komið í ákveðinn farveg.

Sá vandi sem núna er uppi er að meginstofni kominn til vegna þess að Alþingi samþykkti á sínum tíma lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og auk þess vatnalögin, sem hér eru til umræðu, sem hefur átt stóran þátt í því sem hefur gerst hefur í Reykjavík, varðandi nýjan meiri hluta þar. Þegar hlutur í Hitaveitu Suðurnesja var seldur var lagaramminn ekki sem skyldi, þ.e. að löggjöfin var ekki undir það búin að taka við sölunni. Það gerir það að verkum að við höfum lent í ógöngum. Nú er það hlutverk þingsins að greiða úr þeim ógöngum og það er mikilvægt að menn verði samstiga og tilbúnir í það verkefni.

Ég vildi koma því að í þessu andsvari og ég fagna því að hv. þm. Jón Magnússon virðist tilbúinn til þess eins og margir góðir þingmenn í salnum.