135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[21:02]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á nokkuð svipuðu róli og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í mati á þessari ræðu sem mér þótti skemmtileg og málefnaleg. Enda þótt hv. þm. Jón Magnússon sé markaðshyggjumaður en ég félagshyggjumaður, og við eigum þar af leiðandi ekki samleið í sama flokki og áherslur okkar ekki hinar sömu í mörgum málum, get ég tekið undir flest af því sem hann sagði áðan því að hann lagði áherslu á að verkefni samtímans, og ég vil segja mest knýjandi og brennandi verkefni sem stjórnmálin standa frami fyrir, sé að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum. Síðan væri hitt, hvernig við virkjuðum ólík eða mismunandi tæki við að veita þjónustu. Hann vill kannski skoða þar tæki markaðarins í ríkari mæli en ég geri en hann sagði að við ættum að hafa það að leiðarljósi að gera það sem hagkvæmast væri fyrir þjóðina hverju sinni. Út á það gengur þingmálið sem við ræddum í upphafi vikunnar og við lögðum fram, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að ráðist yrði í slíka rannsókn.

En ég verð að segja — og ég sakna þess að fulltrúi Samfylkingarinnar skuli vera farinn úr salnum — að ég tel að allir sem eru sammála þessu grundvallarsjónarmiði, að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, verði að taka höndum saman núna. Þá er ég að hugsa um auðlindina í sjónum, fallvötnin og jarðvarmann. Nú á ekki lengur að láta þá sem standa gegn slíkri grundvallarlagasetningu (Forseti hringir.) stöðva hana lengur.