135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:37]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að öll gögn Hafrannsóknastofnunar varðandi stofnmatið væru út úr korti, ég hef bara verið að benda á nokkur atriði eins og uppvaxandi árganga sem mælast núna í skyndilokunarferlinu, og það er misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann heldur að Magnús Þór Hafsteinsson hv. fyrrverandi þingmaður hafi fundið það upp sem við höfum sett inn í þessa tillögu. Það er beinlínis sagt frá því að hann hafi tekið þessar töflur úr gagnagrunni Hafró og sett þær saman til þess að menn sæju samhengið á milli meðalfallþunga og stærðar loðnustofns. Það er engin ný uppgötvun í því, það er bara verið að setja þetta saman þannig að menn geti með einföldum hætti borið þetta saman. Ég vænti þess að menn sækist eftir því að fá skýrar og einfaldar myndir dregnar upp þegar menn eru að halda því fram að beint samhengi sé á milli stærðar loðnustofns og fallþunga þorsksins.