135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:41]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svo sem ekki miklar athugasemdir við þessa framsetningu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, það er þannig og er löngu vitað að fiskur veiðist almennt ekki á línukróka nema hann sé svangur og ef hann er mjög gráðugur við að taka línukrókana þá er það bein afleiðing þess að fiskurinn hefur ekki nægjanlegt æti.

Hins vegar er það þannig að ef bæði er smáfiskur og stórfiskur á sömu slóð þá er smáfiskurinn fljótari að bíta á krókana en stórfiskurinn, það er búið að margsýna það í rannsóknum. Þetta hafa menn skoðað í Noregi m.a. þar sem jafnvel stærri fiskurinn kemst ekki að fyrir smáfiskinum sem er gráðugri en stærri fiskurinn og grípur krókana. En það sýnir auðvitað að það er hellingur að vaxa upp.