135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:27]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns og ég get gert þá játningu að ég var sammála sumu sem þar kom fram en ekki öllu. Ég var t.d. sammála honum um að hófsemi væri góð. Ég held við getum öll fallist á það, í hvaða efni sem er. Ég get líka tekið undir það að misnotkun, hvort sem er á áfengi eða fíkniefnum, er óæskileg og hefur hörmulegar afleiðingar. Enginn þeirra flutningsmanna sem standa að þessu frumvarpi ætlar sér að gera lítið úr áfengisvandanum og hafa alls ekki gert og það hefur margoft komið fram í umræðunni. Þvert á móti höfum við sem hér höfum talað og mælt fyrir frumvarpinu sagt allan tímann að við séum tilbúin til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að efla hér forvarnir og til þess að koma þeim til hjálpar sem fara villir vegar í þessum málum.

Hv. þingmaður lýsir því að aldrei hafi fleiri verið á Vogi og aldrei hafi fleira ungt fólk þurft að leita þar aðstoðar og spyr hvort Alþingi Íslendinga eigi að sitja hjá. Auðvitað á Alþingi ekki að sitja hjá. Það má ekki stilla málunum þannig upp að við sem flytjum þetta frumvarp séum að hvetja til aukinnar drykkju og að menn séu í endalausu partíi, eins og mér heyrðist hv. þingmaður halda fram.

Ég ætla að koma að fleiri atriðum sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni í seinna andsvari mínu en mig langar til að spyrja út af því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns: Er það ekki rétt skilið hjá mér að öll þau rök sem hann færði fram í ræðu sinni væru rök fyrir því að banna áfengi á Íslandi?