135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:16]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get náttúrlega ekki mikið gert að því þótt hv. 9. þm. Reykv. s. skilji ekki hvað á sér stað í kollinum á mér. Það verður bara svo að vera. Við verðum að lifa við það.

Ég sagði í upphafsræðu minni, ég veit ekki hvort hv. þingmaður tók eftir því, að ég teldi að aðgengi að þessari vöru ætti að vera gott en það ætti ekki að vera ágengt og það ætti ekki sérstaklega að halda henni að fólki. Ég tel að með því að afnema einkasöluna, með því að léttvín og bjór, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, fari inn í matvöruverslanirnar, muni það stórauka neyslu áfengis. Þannig er samhengið í mínum huga. Það kann vel að vera að hv. þm. Birgi Ármannssyni sjái ekki samhengi þarna á milli en það er þannig í mínum huga.