135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf við Norðmenn og Dani á sviði öryggismála.

104. mál
[13:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um samkomulag eða samning sem gerður var við Norðmenn og Dani síðasta vor um samstarf á sviði öryggismála, varnarmála, viðbúnaðar, leitar og björgunar.

Nú er það svo að það deilir enginn um ágæti þess að stofna til samstarfs með þessum Norðurlandaþjóðum um öryggismál hvað varðar leit og björgun á hafi, ýmislegt sem lýtur að umhverfismálum o.s.frv. sem byggist á NATO-samningnum vegna þess að þetta samkomulag gerir það.

Ég vil gagnrýna það á tvennum forsendum. Annars vegar hve ólýðræðislega var staðið að málum. Undirritaður var rammasamningur 26. apríl sl. í aðdraganda kosninganna án þess að um hann hefði farið fram umræða á Alþingi eða utan þingsins. Ég leyfi mér líka að hafa efasemdir um að við eigum að efna til samstarfs á grundvelli NATO-samningsins. Ég held því fram að hér séu stjórnvöld að kasta fjármunum skattborgarans á glæ og það án þess að til þess hafi fengist heimild á Alþingi.