135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að hefja máls á þessari umræðu og fyrir þær spurningar sem hann beinir til hæstv. sjávarútvegsráðherra, og sjávarútvegsráðherra um leið fyrir svörin. Ég gæti í sjálfu sér tekið undir ýmislegt sem hv. þingmaður hefur fært fram um auðmyndun í kvótakerfinu, um það þegar menn hafa selt sig út úr sjávarútveginum með mikinn hagnað. Það höfum við jafnaðarmenn út af fyrir sig gert og auðvitað má almennt taka undir varnaðarorð um vaxandi skuldsetningu, ekki sérstaklega í sjávarútvegi eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra heldur almennt í landinu, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum. Það er full ástæða til að hafa uppi varnaðarorð í því og minna menn á mikilvægi þess að finna fótum sínum forráð.

Mér er þó, eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu, nokkuð óljóst með hvaða hætti Alþingi ætti að koma að þeim málum. Mér þykja sumar spurningarnar, einkanlega kannski sú síðasta um veðheimildir sjávarútvegsins, nokkuð ankannalegar á þessum tímum. Auðvitað eru einfaldlega sjálfstæð fyrirtæki og fjármálastofnanir sem taka ákvarðanir um að lána sjálfstæðum fyrirtækjum í sjávarútvegi fé til rekstrar síns og það eru viðskipti þeirra aðila og útilokað að sjá fyrir sér að Alþingi grípi með einhverjum hætti þar inn í eða eigum við að setja lög á þinginu um það hvað fólk eða fyrirtæki megi skulda?

Nei, þótt við höfum á þessum vettvangi frá því að ég man fyrst eftir mér rætt stöðu fjármála í sjávarútvegi (Forseti hringir.) held ég að þessi umræða sé nokkuð langt frá því að eiga við í okkar (Forseti hringir.) nútímaviðskiptaumhverfi eins og staðan er árið 2007.