135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:36]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Í kjölfar mikillar umræðu um orkuauðlindir þjóðarinnar og fréttaflutning undanfarna daga hlýtur að vakna spurning um hvað ríkisstjórnin ætli sér að gera varðandi eignarhlut í Landsvirkjun. Sjálfstæðisflokkurinn fer í augnablikinu með eignarhald á fyrirtækinu. Því er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra svari spurningunni: Stendur til að einkavæða Landsvirkjun? En þar sem hæstv. fjármálaráðherra er ekki til staðar þá vænti ég að hæstv. forsætisráðherra svari því.

Í fyrradag kom fram í fréttamiðlum landsins yfirlýsing frá forstjóra Landsvirkjunar og fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins, Friðriki Sophussyni, um að hann styddi hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu Landsvirkjunar, að hann telji það algert skilyrði á raforkumarkaði. Á sama tíma kemur fram sams konar yfirlýsing frá hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Illuga Gunnarssyni, í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag um að hafist verði handa við að losa ríkið úr rekstri þess fyrirtækis. Sams konar yfirlýsingar hafa komið frá öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins nýlega.

Í mínum huga gæti þetta ekki verið skýrara enda þessar yfirlýsingar í samræmi við yfirlýsingar landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þar var skýrt tekið fram um að huga bæri að frekari einkavæðingu á sviði orkumála. Sjálfstæðisflokkurinn er einkavæðingarflokkur en nú eru öll merki þess að í skjóli Samfylkingarinnar eigi að ráðast í sölu og einkavæðingu á Landsvirkjun. Að vísu var fullyrt í kosningabaráttunni í mínu kjördæmi, af hálfu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, að ekki stæði til að selja Landsvirkjun. En hvað má hann sín þegar einkavæðingarhönd Sjálfstæðisflokksins fer af stað?

Við skulum átta okkur á því að stórir hlutar virkjana Landsvirkjunar eru vafalitið innan þjóðlendna eða tilheyra þeim að einhverju leyti. Í mínum huga er þetta stórmál. Ætlum við að afhenda auðmönnum orkufyrirtæki í eigu ríkisins og þar með stóran hluta af orkuauðlindum landsins eða ætlum við að standa vörð um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar?

Stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessum efnum, að Landsvirkjun og dótturfyrirtæki hennar verði áfram í eigu ríkisins sem og önnur orkufyrirtæki í eigu ríkisins.