135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka aftur þetta sjónarmið að við eigum ekki að horfa til þess að atvinnuuppbygging sé óhjákvæmilega tengd orkufrekri starfsemi. Þegar hæstv. ráðherra talar um að hér kunni að koma það mörg netþjónabú að þau slagi upp í orkufrekt álver þá fer nú aðeins um mig, skal ég játa, því þegar við lögðum til stóriðjustopp þá tengdist það að sjálfsögðu því að við höfðum áhyggjur af því að verðmætum náttúruperlum verði fórnað fyrir stóriðju hverju nafni sem hún nefnist. Ég er hins vegar alls ekki að afskrifa þessa hugmynd um netþjónabúið. Ég hef einfaldlega ekki kynnt mér alla þætti málsins og að sjálfsögðu mun ég hugleiða það sem hæstv. ráðherra sagði að við ættum ekki að setja alla slíka starfsemi undir sama hattinn, þau væri misjöfn að stærð og umfangi og svo framvegis.

En það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að landbúnaðurinn og þar með grænmetisframleiðslan og ylræktin heyrir ekki undir hans ráðuneyti. En þessi málaflokkur gerir það engu að síður og hann hlýtur að hafa alla atvinnustarfsemi í landinu og hagsmuni landsmanna almennt til skoðunar þegar þessi mál eru annars vegar og ég spyr hæstv. (Gripið fram í: Byggðamál.) ráðherra — og byggðamálin þar með einnig — hvort hann muni beita sér fyrir því að endurskoða frumvarpið með hagsmuni landbúnaðar og grænmetisframleiðslu sérstaklega í huga. Hæstv. ráðherra sagði að þetta hefði ekki verið skoðað við smíði þessa frumvarps. Og spurningin er þessi: Mun ráðherra láta fara fram slíka athugun og endurskoðun á frumvarpinu með þetta í huga?