135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um það frumvarp sem ég hef hér flutt. Ég heyri það á hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið að þeir eru meginefni frumvarpsins algjörlega sammála. Menn hafa fagnað því hér í umræðunni að hér er verið að leggja til að eftirlitsgjaldið sem Orkustofnun hefur innheimt og runnið hefur í ríkissjóð sé lækkað töluvert. Ég hef sömuleiðis sagt það úr þessum ræðustól að ég hyggist fylgjast með því hvernig þróunin verður á annars vegar tekjum af þessu gjaldi og hins vegar kostnaði Orkustofnunar við eftirlitið með það í huga ef nauðsynlegt reynist í framtíðinni að lækka það enn frekar.

Ég varpaði því sömuleiðis fram í umræðunni í andsvari við hv. þm. Ólöfu Nordal að vel kæmi til greina að skoða hvort þessi gjaldheimild ætti frekar að útfærast í reglugerð þannig að iðnaðarráðherra gæti hverju sinni eftir því sem þessi mál þróast lagt til lækkun eða þá hækkun á gjaldinu eftir þróun markaðarins. Allt bendir auðvitað til að raforkuframleiðsla muni aukast á næstu árum og þar af leiðandi muni enn skapast svigrúm til þess þegar fram líða stundir að lækka gjaldið enn frekar.

Hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir og Ögmundur Jónasson hafa rætt hér nokkuð gildi netþjónabúa. Það liggur alveg ljóst fyrir að eftir að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að leggja annan sæstreng til útlanda, til Kaupmannahafnar, þá opnuðust nýir möguleikar til þess að fá slíka starfsemi hingað til lands. Það var ómögulegt að fá hana meðan ekki var alveg fullkomið öryggi eins og það sem felst í tveimur strengjum. Það lá líka fyrir samkvæmt úttektum og samkvæmt viðræðum við þá sem hugsanlega geta hafið slíka starfsemi hér á landi að sá markaður var snöggt um stærri ef ákvörðun var tekin um það að fara til Skandinavíu heldur en til annarra staða. Ástæðan er sú að þar er markaðurinn í örustum vexti og sömuleiðis er baklandið, Austur-Evrópa, þ.e. þar er sömuleiðis líka markaður í miklum vexti. Ég bind góðar vonir við að við munum innan tíðar sjá hér á landi rísa netþjónabú af fremstu kynslóð, þ.e. eitt af þessum stóru búum þar sem búið er að taka saman margvíslega þjónustu og sem krefst mikillar flutningsgetu.

Það atriði frumvarpsins sem laut beinlínis að þessu efni snertir hins vegar fyrst og fremst smærri gagnamiðstöðvar. Ég hef þá í huga hagsmuni landsbyggðarinnar, þ.e. að hægt sé að koma þangað einhvers konar gagnamiðstöðvum vegna þess að markaðurinn hefur sýnt áhuga á því — athugið hv. þingmenn — að setja hér niður líka litlar gagnamiðstöðvar. Þá tel ég að þær mundu henta ákaflega vel á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Þess vegna hef ég í gegnum Fjárfestingastofu hafið samstarf við tíu sveitarfélög sem miða að því að kynna þau sem svæði þar sem vænlegt væri að setja niður slíkar miðstöðvar. Þær eru miklu minni og krefjast miklu minna rafmagns og þar af leiðandi, ef ekki hefði verið lögð til þessi breyting, þá væri mögulegt að margar þeirra sem eru einhvers staðar á bilinu í kringum 10 megavött hefðu í reynd þurft að greiða fyrir flutning á rafmagni fimm sinnum meira en þeir sem eru ofan markanna. Það hefði í einu vetfangi slegið þessa möguleika út af borðinu. Ég tek mig alvarlega og mitt hlutverk sem byggðamálaráðherra. Ég er með þessu, og neita því ekkert, fyrst og fremst að slást fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar í þessu máli.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði hér greinilega af töluverðri þekkingu á þessu máli enda hefur hann setið í iðnaðarnefnd töluvert lengi og þekkir raforkulögin út og inn. Satt best að segja leið mér á köflum eins og auðsveipum lærisveini sem hlýddi á sinn meistara þegar ég hlustaði á hann útlista hérna af sinni sérfræðikunnáttu og þekkingu margvísleg smáatriði þessa máls.

Hv. þingmaður bar þar niður í sínu máli að hann spurði mig sem iðnaðarráðherra hvort ég hefði — ég tók spurningu hans í fyrri ræðu hans þannig — hvort ég hefði sérstaklega hugað að málefnum ylræktar í landinu þegar þetta var gert. Ég svaraði honum alveg ærlega. Ég hafði ekki gert það. Benti honum hins vegar á það að ef honum tækist með einhverjum hætti að flytja undir iðnaðarráðuneytið málefni landbúnaðarráðuneytisins þá yrði það auðvitað á mínu verksviði.

Hins vegar var ákaflega gott samstarf með mér og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem fer með málefni ylræktarinnar. Ég fer að hluta til með málefni raforkumarkaðarins. Hv. þingmaður veit það af mörgum ræðum sem hann hefur heyrt mig flytja hér í gegnum árin að ég hef margoft rætt möguleikana á því að ylræktin og þeir sem hana stunda sameinuðust í samtökum sem semdu fyrir ylræktendur um stórkaup á raforku. Verðið mundi þá væntanlega í hlutfalli við magnið verða lægra.

Hv. þingmaður spurði mig síðan sérstaklega að því hvort ég hygðist í framhaldi af þessum orðaskiptum gera úttekt á þessum möguleikum. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að það er utan verk- og valdsviðs míns ráðuneytis. Ef hins vegar þeir sem um þau mál véla koma til mín og vilja einhvers konar samstarf um það þá auðvitað stendur ekki á mér að skoða þessi mál. En hv. þingmaður má ekki gleyma því að með því að lækka þennan þröskuld þá auðvitað færist hann nær því að geta séð veröld þar sem aðrir notendur, miðlungsnotendur raforku, gætu fallið undir. Það er ekkert útilokað í þeim efnum. En þetta er ekki á valdsviði iðnaðarráðuneytisins. Hins vegar stendur hv. þm. Ögmundur Jónasson miklu nær því að geta látið skoða það fremur en iðnaðarráðherra sem hér stendur. Hann situr í iðnaðarnefnd og hann hefur sem þingmaður … (Gripið fram í.) Hans flokkur á að minnsta kosti fulltrúa í iðnaðarnefnd og hann getur innan þeirrar fagnefndar þingsins óskað eftir umræðu í nefndinni um þetta og þá möguleika og eftir atvikum lagt fram tillögur faglega útfærðar af þeirri miklu þekkingu sem hann býr yfir í þessum efnum, sem lúta að lausn þessa máls, fyrst hann ber það svo fyrir brjósti. Það er margþekkt þegar mál af þessum toga koma til þingsins þar sem menn telja nauðsynlegt kannski að skoða skylda hagsmuni en sem ekki er beinlínis tekið á í frumvarpi að það sé gert í þingnefnd.

Hv. þingmaður býr því ekki við þær skorður valds sem ég hef og mér er sett með reglugerð um mitt ráðuneyti. Hann getur gert þetta í þingnefndinni. Ekki mun standa á iðnaðarráðuneytinu að koma öllum þeim upplýsingum til þingnefndarinnar sem eru í valdi þess ef eftir því er óskað.

Þetta er svona mitt viðhorf og svar til hv. þingmanns og formanns þingflokks vinstri grænna um þetta. Ég skil vel að hann beri þetta mál fyrir brjósti. En hversu mikið sem ég vildi að þá er það bara ekki alveg á mínu valdi eins að verða við óskum hans. En ég get tekið þátt í því.