135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég greindi frá því í framsöguræðu minni áðan að megintilgangurinn með þessu væri það að reyna að styðja við landsbyggðina, að reyna að skapa umhverfi sem gerir okkur kleift að laða smáar eða miðlungsstórar gagnamiðstöðvar á landsbyggðina. Ef hv. þingmaður vill tefja það mál lifi ég góðu lífi án þess en það gæti kannski orðið til þess að einhvers konar tækifæri sem glittir í mundu tapast gagnvart einhverjum stöðum á landsbyggðinni. Þá verða hv. þingmenn Vinstri grænna bara að gera það upp við sig. (Gripið fram í: Er þetta hótun?) Nei, engin hótun, ég er bara að segja að iðnaðarnefnd má mín vegna skoða þetta eins djúpt og út í hörgul og hún vill. Það eru engar kvaðir af minni hálfu. Mér er auðvitað eins og öðrum ráðherrum sem leggja fram mál annt um að þau nái fram að ganga. Þarna eru bara tvenns konar hagsmunir. Við látum nefndina bara vinna sinn gang, ég er ekki með nein fyrirmæli til hennar. Ég er þeirrar skoðunar að framkvæmdarvaldið eigi ekki að gefa fagnefndum Alþingis nokkur fyrirmæli.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað er orka takmörkuð auðlind. Spurningin er með hvaða hætti við nýtum þá orku sem til er í landinu. Afstaða mín liggur alveg skýr fyrir. Ég vil reyna að nota orkuna sem hér er til að skapa sem flest störf og sem best launuð störf og jafnframt þannig að umhverfið beri sem minnstan skaða af.

Ljóst er að það eru ekki nein losunarvandamál sem tengjast starfsemi af þessu tagi en auðvitað er öflun orkunnar háð sömu annmörkum og öflun orkugjafans að öðrum geirum atvinnulífsins, þ.e. þar vegast á hagsmunir nýtingar og verndar. Að öðru leyti held ég að við séum alveg sammála um þetta efni, ég og hv. þingmaður, eins og um svo margt annað.