135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir hádegið sagði formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðni Ágústsson, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samstarfsflokka sína í bandi en eftir hádegið kemur varaformaður flokksins og reynir að segja okkur að Samfylkingin hafi samstarfsflokk sinn í vasanum. Ég held að það sýni okkur ágætlega að það er ýmislegt reynt á þessum degi til að koma einhverju af stað á milli stjórnarflokkanna og egna milli þeirra (Gripið fram í.) í þessu máli sem við hér höfum til umfjöllunar. Ég heyri að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, espast öll við að vitnað sé til orða hennar.

Í loftslagsmálunum er góð og vel ígrunduð vinna í gangi að því að setja niður aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er mjög mikilvægt að við gerum það vegna þess að trúlega fengum við of rúmar heimildir til mengunar í Kyoto fyrir 10 árum. Það sjáum við á því að við höfum nánast ekkert hafst að í 10 ár til að draga hér úr mengun, heldur þvert á móti aukið mengunina. Við þurfum að gera betur.

Markmið til 2050 eru góðra gjalda verð en við þurfum skýr markmið til skemmri tíma. Í því hlýtur ríkisstjórnin að líta til markmiða Evrópusambandsríkjanna um það að fyrir árið 2020 verði dregið úr losun um 20%, og 30% ef önnur ríki eru tilbúin til þess. Við getum, Íslendingar, ekki verið eftirbátar Evrópusambandsríkjanna í þessum efnum. Við hljótum líka að hugleiða það eftir að Norðmenn hafa sett fram sína metnaðarfullu stefnu um 0% losun árið 2050, 0% nettólosun, hvort langtímamarkmið okkar séu nægilega metnaðarfull og hvort við viljum vera eftirbátar Norðmanna í þessum efnum eða setja okkur markmið í fremstu röð í heiminum.

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að í allri þessari vegferð er mikilvægt fyrir okkur að líta á þetta sem tækifæri en ekki vandamál og sjá öll þau mýmörgu (Forseti hringir.) tækifæri í viðskiptum, þróunarsamvinnu og tækniþróun sem í þessari þróun felast.