135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem ráðherrann gaf hér varðandi matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, að um það séu engin sérstök áform. Það er sannarlega rétt að það er ekki boðað í þessu frumvarpi en ég hafði áhyggjur af því að einhver áform kynnu þá að vera í farvatninu. Ég skil yfirlýsingu hæstv. ráðherra þannig að hann sé a.m.k. ekki að reka neitt sérstaklega á eftir því að það verði gert og muni alls ekki hafa neitt sérstakt frumkvæði að því og það sé þá frekar ef sveitarfélögin tækju það upp hjá sér að óska eftir því. Mér þykir það mikilvægt vegna þess að ég veit að matvælaeftirlitshluti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga er svo þýðingarmikill hluti af heilbrigðiseftirliti þeirra að það væri mjög bagalegt ef þau misstu það frá sér. Það mundi kippa stoðunum undan því, a.m.k. hjá mjög mörgum sveitarfélögum vítt og breitt um landið, að þau gætu rekið heilbrigðiseftirlit svo eitthvert gagn væri að.