135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:11]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og landbúnaðarins og þeirra starfa sem ég vann í átta ár. Ég vil að það sé á hreinu á milli mín og hv. þingmanns að ég er ekki í neinni þröngsýnni gamaldags íhaldssemi. Ég er að tala um viðamikil mál sem snúa að landbúnaði dagsins í dag. Hvað háskólana varðar þá verður ekki snúið við þar. Þeir munu fara undir menntamálaráðuneytið. En ég hef orð margra fyrir því að þeir óttast að skólarnir lifi ekki af undir því kerfi, litlir skólar úti á landsbyggðinni. Þess vegna getur sjálfseignarformið, því atvinnulífið getur komið þar á margan hátt inn í það, verið hentug leið í dag. Ég hef ekki barist gegn því og legg ekki í þá baráttu. Ég sé að það hefur sinn gang.

En ég hef líka sagt að Rala fór þarna inn með alla vísindamenn landbúnaðarins. Það er flókið spil. Síðan hef ég varað við því og er andstæðingur þess að taka landgræðsluna og skógræktina þaðan með öllum vísindamönnunum. Ég hef rakið að allir vísindamenn landbúnaðarins eru á förum frá atvinnuvegaráðuneytum. Allir vísindamenn landbúnaðarins eru á förum frá landbúnaðarráðuneytinu. Þeir er heyra undir ráðherra sem dagsdaglega mun aldrei fjalla um landbúnaðinn. Þess vegna er þetta mjög vandmeðfarið.

Ég hef í raun beðið hv. þingmenn að koma í veg fyrir þetta skemmdarverk og snúa við á brautinni. Það er hægt að laga þetta á margan hátt í þingnefndum. Ég geri kröfu til þess, hæstv. forseti, að þessi mál fari til landbúnaðarnefndar til umfjöllunar og fagnefndanna. Þær verða að fá að koma að þessum málum. Þetta er, eins og ég hef sagt, ljótasti bandormur sem ég hef séð fluttan hér af forsætisráðherra (Forseti hringir.) á þingi meðan ég hef setið hér, líklega áratugum saman.