135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ítreka það að mér er ekki kunnugt um neinar slíkar breytingar og það er ekkert í þessu frumvarpi sem kallar á þær, svo einfalt er það í raun og veru hvað varðar þessa skóla. En að mínum dómi og þeirra sem að þessu frumvarpi standa eru skólar almennt betur komnir undir menntamálaráðuneytinu en einstökum fagráðuneytum. Um þetta er ágreiningurinn sem m.a. hefur komið fram af hálfu hv. 3. þm. Suðurk. Það verður passað upp á rannsóknirnar með sérstökum samningum við fagráðuneytin, landbúnaðarráðuneytið, og þess verður gætt að greinin sem slík, landbúnaðurinn, fái notið sín til fulls enda eru og verða þessar rannsóknir í hennar þágu.