135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:49]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að í þeirri 20–30 ára baráttu við að koma Hólaskóla í sókn þá stóðu landbúnaðarráðherrarnir stundum höllum fæti. En þeir bjuggu vel að því, í öllum ríkisstjórnum sem ég man eftir, að forsætisráðherrann stóð með þeim. Davíð Oddsson stóð með mér sem landbúnaðarráðherra í þessu, Halldór Ásgrímsson gerði það einnig sem forsætisráðherra. Nú er sú tilfinning farin, því miður.

Ég bjó auðvitað við það allan tímann að sjálfstæðismenn töluðu um að skólarnir yrðu að fara. Þess vegna hef ég sagt: Sjálfsagt er það niðurstaða hinnar nýju forustu að svo verði að vera, enda varaformaðurinn menntamálaráðherra. Ég hef reynt að vekja athygli á því að þótt þeir færðu skólana þá gætu þeir gert það af svolítið meiri virðingu og vandvirkni. Ég er ekki viss um að þeir lifi. Hæstv. landbúnaðarráðherra virðist vera kærulaus í þessu máli og enga tilfinningu hafa fyrir því, því miður. Ég segi það hiklaust úr þessum stól. Ég gagnrýni hann harðlega fyrir þessa vegferð. Hann hefur látið buga sig í málinu, hafi hann viljað, sem ég hef trú á, halda fast utan um þessi stórvirki í kjördæmi sínu, sem sannarlega eru miklar byggðastofnanir sem mennta fólk sem nýtist landsbyggðinni best.

Ég óska þess að þeir sem hér hafa um vélað og talað af jafnlítilli tilfinningu um málið og hæstv. forsætisráðherra, sem virðist standa á sama, endurskoði sinn hug og fari yfir þessi mál, svo ég tali ekki um Landgræðsluna og Skógræktina sem ég hef einnig vakið athygli á í dag.