135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérstakt að koma á eftir hv. þingmanni sem ræddi nú þessi mál vegna þess að hér voru viðhöfð mjög stór orð. Það er bara mjög eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á þessum málum eins og öðrum en það er enginn fótur fyrir því að sá sem hér stendur hafi ráðist af hörku gegn einhverjum aðilum sem hafa tjáð sig um þetta. Það er enginn fótur fyrir því. Það er algerlega ótrúlegt að hv. þingmaður skuli tala með þessum hætti. Ef hv. þingmaður er ósammála þeim sem hér stendur eða einhverjum öðrum um þetta mál eða eitthvert annað mál er það bara sjálfsagt og eðlilegt og hann hlýtur að færa rök fyrir máli sínu hvað það varðar.

Ég hef hvað eftir annað talað um þetta mál eins og allir vita. Ég vek athygli á því og hvet hv. þingmann til að kynna sér frumvarpið og hvað hefur verið í gangi varðandi þessi mál almennt. Ég veit vel (Gripið fram í.) að hann er hv. þingmaður í þingflokki Vinstri grænna. Ég hef skipst á skoðunum við þingmenn Vinstri grænna um þessi mál og þeir hafa talað fyrir því að fjölga útsölustöðum áfengis á Íslandi, talað fyrir því og fundist það algerlega sjálfsagt.

Þetta frumvarp gengur út á það, eins og menn vita, að afnema einokunarsölu ríkisins. Þarna eru tæki fyrir sveitarfélögin til að stýra aðgengi, staðsetningu og öðrum slíkum hlutum, tæki til þess þannig að menn gætu verið með miklu strangari reglur hvað það varðar en nú er. Ég vil biðja hv. þingmann og aðra þá sem taka þátt í þessari umræðu að gera það málefnalega og fara þannig yfir málin. (Forseti hringir.) Ég held að það sé öllum, virðulegi forseti, til góðs.