135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði að þingmenn ættu að kynna sér hvað hefði verið í gangi. Það er rétt að fara aðeins yfir það. Það sem hefur verið í gangi á síðustu árum er það að áfengisgjald hefur lækkað að raungildi um 33% á síðustu níu árum. Það sem hefur verið í gangi á sama tíma er að neyslan hefur aukist um 30%.

Það er beint samband á milli verðs og neyslu, virðulegur forseti. Það vitum við í ljósi margítrekaðra rannsókna með sömu niðurstöðum. Við vitum líka að þetta frumvarp dregur úr tekjum ríkissjóðs. Við vitum líka, virðulegur forseti, að það er boðað í þessu frumvarpi að lækka áfengisgjald um 50%. Við vitum það enn fremur að sænska lýðheilsustöðin hefur komist að þeirri niðurstöðu í kjölfar rannsókna að það að færa áfengissöluna í verslanir muni auka neysluna um 29%. Við vitum líka að það að lækka áfengisgjaldið um 50% þar til viðbótar mun enn fremur auka neysluna. Við vitum að aukin neysla þýðir aukin vandræði og aukinn kostnað sem lendir á heimilum og ríkissjóði.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er búinn að lýsa yfir stuðningi við mál sem dregur úr tekjum og eykur kostnað ríkissjóðs. Hann er búinn að lýsa yfir stuðningi við mál sem eykur vanda tuga þúsunda Íslendinga og tuga þúsunda heimila á Íslandi. Hver er áfengisstefna þessarar ríkisstjórnar? Er hún sú hin sama og síðustu ára, þ.e. að halda áfram að auka neysluna? Halda áfram að auka neysluna meira, halda áfram að auka vandann, halda áfram að búa til meiri kostnað fyrir ríkissjóð?

Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að þetta er ábyrgðarlaus stefna, ábyrgðarlaus málflutningur, vegna þess að menn vita betur. Vísindalegar rannsóknir í mörgum löndum leiða menn til þeirrar niðurstöðu að menn vita betur.