135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:56]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar stéttarfélag hefur samkvæmt lögum frá Alþingi skattlagningarheimild á félagsmenn sína og notar ægivald ríkisins til að innheimta félagsgjaldið, hvort sem þeir eru í stéttarfélaginu eða ekki, þá er ansi mikil hætta á því að viðkomandi stéttarfélag verði makrátt og rólegt í tíðinni. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir því að afla félagsmanna.

Ég er hræddur um að stofnendur verkalýðshreyfingar á öndverðri síðustu öld yrðu hissa að sjá það fyrirkomulag, sem ég mundi kalla einræðisfyrirkomulag, í stéttarfélögum opinberra starfsmanna á Íslandi og ég er nær viss um að það skaðar stéttarfélögin mjög mikið. Fólk sem borgar skatt hefur ekki sömu tengsl við stéttarfélögin og ef það væri sjálfviljugt í félaginu og borgaði félagsgjaldið af frjálsum vilja. Þetta er í rauninni skattlagning, skattlagningarheimild sem stéttarfélögin hafa fengið og eru ekki tilbúin til að láta af hendi.