135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:28]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ósanngjarnt að koma og spyrja stórra spurninga í stuttu andsvari og tækifæri hæstv. ráðherra því takmarkað en ég vænti þess að í seinni ræðu sinni muni hæstv. ráðherra gera nákvæmari grein fyrir þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fyrir hana.

Það er auðvitað alveg hárrétt að frumvarpið var aldrei lagt fyrir fyrri ríkisstjórn og það vissu allir að það var andstaða Sjálfstæðisflokksins sem réði för þar. Samfylkingin boðaði framlagningu frumvarpsins óbreytts. Við höfum heyrt tóninn í hv. þm. Pétri Blöndal sem vill ekkert í þessum efnum og ef hann væri sjálfum sér samkvæmur þá legði hann niður, eins og hæstv. ráðherra nefndi, samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit, skattstofur og allan pakkann.

Hæstv. ráðherra. 60 millj. eru allt of lítil fjárveiting til málaflokksins, allt of lítil. Þetta er þvílíkt vandamál, þarna eru mannréttindabrot í gangi, sérstaklega alvarlegt hvað varðar kynbundna ofbeldið, þetta stóra heilbrigðisvandamál sem hefur ekki bara áhrif á þolandann til lífstíðar ef ekkert er að gert heldur líka á nánustu aðstandendur og það hefur jafnvel áhrif á kynslóðir. Þar þarf því að taka miklu myndarlegar á heldur en gert er með 60 millj. Við töluðum um hugsanlega glæpi í verðsamráði, samkeppnisglæp. Það er hjóm eitt miðað við alvarleika kynbundins ofbeldis, hjóm eitt.

Ég vil líka nefna hér sérstaklega, hæstv. ráðherra, að hér á landi starfa gagnmerk samtök sem eru Stígamót, Kvennaathvarfið og fleiri sambærileg samtök. Slíkum samtökum ber auðvitað að tryggja verulegar fjárveitingar. Það er á frjálsum félagagrundvelli þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að samþykkja ríflegar fjárveitingar til þeirra en ég beini því sérstaklega til hæstv. ráðherra að huga að þessum merku samtökum.