135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

efling rafrænnar sjúkraskrár.

29. mál
[19:01]
Hlusta

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um eflingu rafrænnar sjúkraskrár. Flutningsmenn eru ásamt þeirri sem hér stendur Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson og Bjarni Harðarson.

Árið 2004 samþykkti ríkisstjórnin stefnumörkun um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004–2007 og birtist þessi stefna í skýrslunni Auðlindir í allra þágu sem forsætisráðuneytið gaf út. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„2. Tekin verði markviss skref varðandi innleiðingu á rafrænni sjúkraskrá fyrir alla heilbrigðisþjónustu, jafnt á sjúkrastofnunum sem á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Fram fari kostnaðarmat og fyrir liggi framkvæmdaáætlun árið 2004.“

Í svari heilbrigðisráðherra fyrir u.þ.b. tveimur árum kom fram að árið 2004 hefði ráðuneytið fengið til liðs við sig ráðgjafarfyrirtæki til að meta stöðu mála og benda á og skilgreina helstu verkþætti í upplýsingavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þar kemur fram að það sé mikill fjárhagslegur ávinningur í því að koma á því rafræna kerfi sem hér um ræðir og það muni einnig stuðla að auknum gæðum í heilbrigðisþjónustu. Það var mat þessara ráðgjafa að ráðast þyrfti í fjárfestingar upp á u.þ.b. 2 milljarða kr. til að byggja upp frá grunni heilbrigðisnet og rafræna sjúkraskrá á þriggja til fjögurra ára tímabili.

Hlutverk slíkrar sjúkraskrár er að halda utan um sjúkragögn einstaklinga, að halda utan um öll formleg samskipti á milli heilbrigðisstofnana um sjúklinginn, og kerfið þarf að geta skipst á upplýsingum við önnur tölvukerfi innan og utan stofnunar. Á vegum heilbrigðisráðuneytis hefur fyrir nokkru verið gerð kröfulýsing fyrir sjúkraskrárkerfið þar sem tilgreindar eru kröfur sem öll sjúkraskrárkerfi verða að uppfylla. Því má að segja að fram hafi farið heilmikil undirbúningsvinna nú þegar.

Flutningsmenn tillögunnar telja æskilegt að innleiða rafræna sjúkraskrá og að það taki ekki lengri tíma en 3–4 ár að ljúka því verki. Ljóst er að kostnaður við verkið mun skila sér mjög fljótt aftur í hagræðingu og meiri skilvirkni í þessu kerfi. Öryggismál skipta líka miklu máli og skipa stóran sess í þessu sambandi en þar er bæði að ræða um öryggi sjúklinga og öryggi heilbrigðiskerfisins. Þetta fyrirkomulag kemur einnig í veg fyrir að sjúklingar þurfi að segja sögu sína aftur og aftur.

Þó nokkuð hefur verið rætt um mistök í heilbrigðiskerfinu og sú umræða kemur alltaf upp annað slagið. Rafræn skráning er mjög mikilvægur þáttur í að bæta þar úr, t.d. að koma á rafrænum lyfjafyrirmælum, en erlendar rannsóknir hafa sýnt að oft eru gerð mistök vegna þess að fyrirmælin skolast til í samskiptum á milli manna einmitt í sambandi við lyfjafyrirmæli. Auk þess má nefna að hér er um ákveðið umhverfismál að ræða þar sem pappírsnotkun verður minni sem er augljóslega jákvætt fyrir umhverfið. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið eru læknar enn að færa pappírsskrár og vissulega er það frekar frumstætt miðað við alla þá tækni sem við búum yfir í dag.

Uppi eru áform um að byggja nýtt sjúkrahús við Hringbraut eftir því sem ég best veit. Vissulega eru einhver skilaboð frá heilbrigðisráðherra og ráðuneytinu sem gætu kannski sett það í annan farveg en a.m.k. hefur ekki komið annað fram en að til standi að fara í þá miklu framkvæmd og að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að allir innviðir við þá framkvæmd verði þannig að upplýsingatæknin sé nýtt og notuð eins og mögulegt er og eins og aðrar þjóðir eru að gera. Ég held því fram að hér sé um að ræða verkefni þar sem við megum engan tíma missa. Við höfðum möguleika á því fyrir nokkrum árum, fimm til tíu árum síðan, að hafa ákveðna forustu í þessum efnum en við misstum af lestinni þá hvað það varðar. Við eigum mjög öflug hátæknifyrirtæki sem starfa á þessu sviði og hafa verið að byggja upp rafræn kerfi hjá öðrum þjóðum og hafa getið sér gott orð fyrir það.

Ég vil að síðustu segja, hæstv. forseti, að ég ætla alls ekki að halda því fram að ekki hafi ýmislegt verið gert til að stíga skref í þessum efnum en það þarf nokkurt átak til að ljúka þessu verki og ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki missa mikinn tíma núna. Þar sem ríkissjóður er vel settur fjárhagslega ætti að vera grundvöllur til þess að fara í það á næstu missirum að ljúka þessu verki og það yrði öllum til heilla, ekki síst sjúklingum þar sem minna yrði um mistök.

Ég mælist til þess að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. heilbrigðisnefndar.