135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:36]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ákvörðun Seðlabanka Íslands var ekki óvænt vegna þess að Seðlabankinn hefur ákveðnu hlutverki að gegna sem Alþingi hefur falið honum og Seðlabankinn mun gegna því þar til ríkisstjórnin beitir sér fyrir breytingu á lögum telji hún það nauðsynlegt. Það að ríkisstjórnin hefur ekki gert það eða boðað neinar breytingar á hlutverki Seðlabankans þýðir einfaldlega að ríkisstjórnin styður Seðlabankann og ætlar honum að vinna samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru.

Það sem við er að glíma er feiknamikil þensla í efnahagslífinu sem verið hefur í mörg ár sem sést m.a. af því að verðbólga hefur verið yfir verðbólgumarkmiðum í þrjú eða fjögur ár samfleytt. Valkostirnir eru tveir miðað við óbreytta löggjöf, þ.e. að hafa mjög háa vexti eða háa verðbólgu. Ríkisstjórnin getur auðvitað lagt sitt af mörkum til að breyta því með aðgerðum sem lúta að efnahagsmálum, með aðgerðum sem draga úr þenslu, en staðreyndin er á annan veg. Við höfum enn vaxandi einkaneyslu, við höfum mikil umsvif í framkvæmdum, bæði opinberra fyrirtækja og einkaaðila, og ríkisstjórnin hefur lækkað skatta og aukið kaupmátt með því móti og kynt undir væntingar um vaxandi kaupgetu í náinni framtíð með því að boða frekari skattalækkanir með almennum hætti á næstunni.

Það er því ekkert annað fram undan en mikil verðbólga eða háir vextir þangað til ríkisstjórnin fer að stjórna efnahagsmálunum. Það er valkosturinn sem ríkisstjórnin á fyrir höndum að grípa til og því fyrr því betra, og því seinna því verra. Það er alveg með ólíkindum að hér hafi ekki verið nein almennileg efnahagsstjórn af viti undanfarin ár og ég vænti þess að með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) ætli menn sér að fara að grípa til aðgerða í þeim efnum, virðulegi forseti.