135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:45]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að taka undir með þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem hafa sagt að ákvörðun Seðlabankans frá í gær hafi komið á óvart. Það er ekki langt síðan gefnar voru út opinberar tölur um að hagvöxtur á þessu ári yrði u.þ.b. 0,7% svo að kannski má segja að það sé líklegra að Seðlabankinn hafi horft í baksýnisspegilinn þegar hann tók þessa ákvörðun en fram á veginn.

Hins vegar má segja að Seðlabankinn sé ekki í mjög góðri stöðu til að hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf í ljósi þess að þær vaxtaákvarðanir sem hann er að taka hafa fyrst og fremst áhrif á óverðtryggðar skuldir. Þær hafa sáralítil áhrif á verðtryggðar skuldir og reyndar koma þau áhrif seint og illa fram og síðan hafa þau fyrst og fremst áhrif á gengið. Þessi hækkun vaxta hefur leitt til þess að íslenska krónan hefur styrkst sem sennilega leiðir til skemmri tíma aðeins af sér meiri einkaneyslu þveröfugt við það sem bankinn stefnir að. Sú staða sem uppi er dregur skýrt fram að Seðlabankinn er í mjög erfiðri stöðu og tæki hans eru kannski ögn bitlaus og virka ekki inn í það sem hann vill hafa áhrif á.

Ég held að í grunninn sé staðreyndin sú að sú staða sem uppi er sé nokkuð erfið, það er ekki augljóst hvernig á að vinna úr henni en hins vegar held ég að þetta innlegg Seðlabankans nú sé ekki til þess fallið að auðvelda efnahagsstjórn, hvað þá kjarasamninga sem fram undan eru í haust.