135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:30]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð inn í þessa umræðu og óska hv. þingmanni til hamingju með þetta mál og með ræðu sína hér. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér, af því að kjördæmavika er nýafstaðin og þingmenn hafa verið á ferð um kjördæmi sín, en þannig er það í mínu tilfelli að ég varð ekki mikið vör við það að sveitarfélögin væru að óska eftir því eða teldu sig í stakk búin til þess að lækka skatta. Það var frekar á hinn veginn að eitthvað skorti á til þess að þau gætu staðið undir þeim kröfum og lögbundnu skyldum sem þau hafa.

Ég álít því að þó að ástæða sé til þess að velta öllum hlutum fyrir sér þá er a.m.k. staða sveitarfélaga á landsbyggðinni ekki þannig að þau mundu notfæra sér það unnvörpum að lækka skattana eða lækka útsvarið þó svo að heimild væri til þess að fara í þá vegferð. En það er auðvitað eilíft umræðuefni hvernig tekjuskiptingin er milli ríkis og sveitarfélaga og það er í gangi vinna sem tengist þeirri skiptingu. Svo er það líka alltaf umræðuefni hér á hv. Alþingi hvaða verkefni sveitarfélögin eigi að hafa og hvort það eigi ekki frekar að fjölga þeim en fækka. Það er forvitnilegt að vita og fylgjast með því og fá upplýsingar um það hvaða hugmyndir ný ríkisstjórn hefur um það að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga því að vissulega geta sveitarfélögin ráðið við mörg af þeim verkefnum sem eru hjá ríkinu og væru betur komin í nærþjónustu.

En lækkun skatta er ekki einmitt það sem ég tel að mundi falla vel inn í efnahagslíf á Íslandi á þessari stundu þar sem við erum að berjast við þenslu eins og fjallað var um fyrr á þessum morgni. Engu að síður þá eru engin mál þannig að það megi ekki ræða þau og þetta er eitt af þeim sem full ástæða er til að fjalla um þegar horft er til lengri tíma. En miðað við stöðuna í dag þá tel ég ekki að þetta sé sérstakt forgangsverkefni.