135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:05]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að frumvarpið sem hér liggur fyrir, frumvarp hv. þm. Daggar Pálsdóttur, sé allrar athygli vert. Það er brýnt að ræða hér á Alþingi málefni forsjárlausra foreldra, sem eru margir í samfélaginu. Ég held að þetta hljóti fyrst og fremst að snúast um hagsmuni barnanna, þeirra hagsmunir eru að umgangast báða foreldra sem mest.

Ég vil byrja á því að nefna 4. gr. frumvarpsins, lögheimilisákvæðið. Ég tel mjög mikilvægt að því verði breytt í þá átt sem hér er lýst. Staðreyndin er sú að þegar barn á lögheimili hjá öðru foreldri hefur það foreldri rétt til barnabóta og hitt foreldrið er meðlagsskylt nema foreldrið þar sem barnið á lögheimili afsali sér meðlagi. Jafnvel þó að samkomulag sé ágætt á milli foreldra þá er það nú svo þegar peningar eru í spilinu að fólk afsalar sér þeim ekkert endilega sjálfviljugt. Ég tel að samkomulagið þurfi að vera meira en lítið gott ef fjármálin eiga líka að rúmast þar inni. Ég held því að það sé mjög gott að setja inn þetta ákvæði til þess að tryggja ákveðið jafnræði og koma í veg fyrir óþarfa deilur út af fjármunum.

Hv. flutningsmaður ræddi það hér að þá fengju báðir foreldrar greiðslu sem einstæðir foreldrar og mér finnst kannski þurfa að skoða útfærsluna á því. Hver er kostnaðurinn af því? En ég held að þetta sé almennt framfaraspor. Sama má segja um kostnaðarskiptingu vegna umgengni, sem rætt er um í 7. gr. frumvarpsins. Fjármálin flækjast oft fyrir foreldrum sem jafnvel hafa með sér gott samkomulag. Það er gott að skýrar sé kveðið á um þau.

Það eru vissulega hagsmunir barna að umgangast báða foreldra sem mest en ég velti þó fyrir mér orðalaginu í 5. gr., 7. gr. og 8. gr. þar sem að jafnaði er kveðið á um 7 daga af 14, þ.e. jafn umgengnisréttur er skilgreindur á þennan þrönga hátt. Ég velti því fyrir mér hvort orðalagið sé of stýrandi. Aðstæður eru mjög mismunandi eftir heimilum. Í sumum tilvikum getur verið gott að vera í lengri tíma í senn hjá foreldrum til skiptis frekar en að vera alltaf á milli heimila, milli vikna. Það getur skapað óróa fyrir barn að eiga heima á einum stað þessa vikuna og öðrum stað næstu viku. Hvar er þetta dót? Það er á hinum staðnum. Það er á hinu heimilinu.

Þótt við viljum tryggja sem jafnasta umgengni hlýtur hún náttúrlega líka að verða mismunandi eftir aldri barns. Hagsmunir barns sem er eins árs eru aðrir en hagsmunir barns sem er 10 ára eða 16 ára. Aðstæður eru ólíkar, ekki bara eftir heimilum heldur líka eftir aldri barna. Ég velti því fyrir mér hvort orðalagið geti talist of stýrandi og reikna með að það verði rætt í allsherjarnefnd. Ég vil vekja athygli á þessu því að ég tel mikilvægt að halda í ákveðinn sveigjanleika fyrir hvern einstakling og fyrir hverja fjölskyldu. Lögin mega ekki verða of, getum við sagt, forsjárhyggjuleg að því markmiði.

Ég hef þegar nefnt hin jákvæðu spor með lögheimilið og kostnaðinn en í raun er það eitt og sér mikilvægt að fá upp umræðu um stöðu barna. Sívaxandi fjöldi barna á tvö heimili og fer mikið á milli heimila, er með tvær fjölskyldur og jafnvel sett af systkinum á hvorum stað. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá þetta frumvarp fram, að við ræðum þessi mál á þingi og í allsherjarnefnd með hagsmuni barna og þar með foreldra að leiðarljósi. Hvað varðar málsgreinina sem hv. þm. Jón Magnússon gerði að umtalsefni, um að kynforeldri eigi eðlilegan rétt við fráfall maka, þá finnst mér mjög brýnt að það sé rætt. Það er jákvætt að breyta lögunum á þennan hátt nema einhver sérstök undantekning sé fyrir hendi og hv. flutningsmaður benti á að hún er til staðar í lögunum.

Ég fagna þessari umræðu og tel hana mjög brýnt innlegg í jafnréttisumræðuna en velti fyrir mér hvort orðalag sé of stýrandi þegar rætt er um jafnan umgengnisrétt út frá ólíkum aðstæðum fólks.