135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:28]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Til er saga um litla ljóta andarungann og ég held að hv. þm. Pétur Blöndal sé ljóti andarunginn í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að þessu máli. Hann er eini þingmaður sjálfstæðismanna sem er í salnum. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, þú ert nýkomin inn.

Hæstv. forseti. Það er dálítið forvitnilegt að heyra að sjálfstæðismenn taka ekki þátt í þessari umræðu. Eitthvað eru þeir hræddir við.

Hv. þm. Pétur Blöndal minntist á að í atkvæðagreiðslu hefðu allir flokkar, og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir minntist á það líka, verið sammála þessu 2003. Ég sat þá hér sem varaþingmaður og allir í Frjálslynda flokknum greiddu atkvæði gegn því frumvarpi. (VS: Ég er að tala um formennina.) Formaður Frjálslynda flokksins átti ekki sæti á Alþingi þá, hann var erlendis svo að ég svari frammíkalli.

Hæstv. þingforseti. Frumvarpið nær að mínu mati ekki nógu langt fram. Við höfðum hugsað okkur, ég og hv. þm. Jón Magnússon, að flytja frumvarp um þetta mál. Ekki er víst að af því geti orðið og setjum við þá fram breytingartillögu við þetta frumvarp. En þegar verið er að tala um að jafna lífeyriskjör alþingismanna og ráðherra til samanburðar við almenna lífeyrissjóði í landinu er ekki nóg að tala um opinbera lífeyrissjóði. Það er mikill munur á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, hvort sem þeir eru í A-deild eða B-deild, og lífeyrisjóðum verkalýðshreyfingarinnar.