135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

breyting á lagaákvæðum um húsafriðun.

33. mál
[13:49]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gleðilegt að hér sé til umræðu íslensk byggingarlist með því frumvarpi sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson mælti fyrir. Ég kem með almennar athugasemdir og tvær til þrjár spurningar sem mig langar til að beina til hv. þingmanns.

Í þessu frumvarpi er fyrst og fremst horft til húsa á ákveðnum aldri, að hús sem hafi náð ákveðnum aldri skuli hljóta friðun. Mig langar í þessu sambandi að benda á það þegar við tölum um byggingarlist að við eigum líka hús á Íslandi sem eru mjög merk en töluvert yngri og ættu kannski líka að hafa einhverja friðunarmöguleika. Ég nefni í þessu sambandi sérstaklega Norræna húsið þar sem mér hefur þótt verulega að því sótt í umhverfinu, það eru komin hús allt í kringum það og orðið verulega þröngt um það. Mér finnst það dæmi um hús sem ekki er timburhús og aldeilis ekki gamalt hús og er í raun og veru mjög framúrstefnulegt hús sem ástæða væri til að gæta sérstaklega. Mig langaði til að benda hv. þingmanni á það.

Einnig langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um hvort húsafriðunarnefnd ætli sér að raða húsum upp með einhverjum hætti ef mikil aukning yrði í því að menn vildu friða hús í landinu, hvernig menn ætli að bregðast við því, og þá ekki síst í því ljósi að víða er um yfirgefin hús að ræða þar sem ekki er hægt að snúa sér til neins til að spyrja eða fá beint leyfi til að rífa þau vegna þess að það er ekki endilega víst hver á þau. Ég meina þá hús víða í sveitum landsins og líka í minni samfélögum sem eru kannski að dragast saman.

Enn fremur langar mig til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann átti sig á hversu mikinn kostnað það hafi í raun og veru í för með sér að breyta lögunum með þessum hætti.