135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

breyting á lagaákvæðum um húsafriðun.

33. mál
[13:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga sem við nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum og 1. flutningsmaður, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hefur mælt fyrir er að mínu viti afar brýnt. Það lýtur að því að breyta lagaákvæðum sem snúa að húsafriðun, það lýtur að því að styrkja ákvæði laga um húsafriðun gagnvart húsum og mannvirkjum sem hafa menningarsögulegt gildi og einnig skipulagslega og hönnunarlega o.s.frv. Það lýtur einnig að því að skerpa á ákvæðum í skipulags- og byggingarlögum gagnvart húsum sem hafa menningarlega og sögulega þýðingu eins og vikið hefur verið að.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir gamalt máltæki og ég held að það eigi líka ágætlega við um margar þær merku og stóru vörður sem við eigum í okkar sögu. Við höfum verið stolt af því að varðveita handritin okkar og skriflega sögu í gegnum þau sem vildum gjarnan hafa getað sótt og varið meir og fært til nýs tíma. Sagan sem geymist m.a. í handritunum er í rauninni síkvik og skapar undirstöðu fyrir tilveru okkar sem menningarþjóðar bæði í nútímanum og í framtíðinni. Sama á einnig við um mannvistarleifar og mannvistarafrek eins og eru í húsum. Hér er þess vegna verið að leggja áherslu á að við sláum enn frekari varnagla gagnvart því að missa ekki þessi dýrmæti frá okkur, styrkja lagalegan grunn þess að grípa megi inn í og varðveita menningararf sem felst í húsum. Það gefur einnig rök og tækifæri til þess að verja með markvissum hætti fjármagni til að byggja þau upp og endurgera þau.

Víða um land er alvarleg staða hvað þetta varðar því að hús sem hér gæti verið um að ræða eru gjarnan t.d. í sveitarfélögum og samfélögum sem hafa nú látið undan síga í vexti, framþróun, eflingu o.s.frv. en mörg þessi sveitarfélög og samfélög búa að miklum menningararfi hvað hús varðar. Við þekkjum þetta í sjávarplássunum á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðurlandi og suður með sjó, um allt land eru samfélög sem eiga marga dýrgripi bæði í húsum og húsaþyrpingum og skipulagi bæja. Sveitarfélögin eru sjálf frekar vanmáttug til að taka á því með viðeigandi og fullnægjandi hætti hvað fjármagn varðar. Oft á tíðum stöndum við frammi fyrir því líka, ekki hvað síst á þenslusvæðunum eins og í Reykjavík, að aðilar sem vilja fá rými til að byggja stór og mikil hús telja að þessi eldri hús sem hýsa byggingarsögulegan arf okkar séu fyrir framtíðarplönum þeirra og þá geta slík sveitarfélög þurft á að halda enn sterkari lagaheimildum til að geta staðið vörð um þessi menningarverðmæti sín.

Því eru margar forsendur sem styðja það að skerpt sé á þessum lögum. Ég þekki það að víða úti um land eru einmitt þau hús sem hér getur verið um að tefla, hluti af ímynd og ásýnd bæja og samfélaga. Ég þekki t.d. vel til á Blönduósi, Kvennaskólann á Blönduósi, og enda þótt hann sé nokkuð yngri en lagaheimildir nú kveða á um að friða skuli hús þá hefur það hús mikið friðunargildi, byggingarsögulegt og menningarsögulegt gildi fyrir samfélagið og þess vegna er mikilvægt að það fái bæði lagalega vernd og líka lagalega styrkingu til að hægt sé að standa vörð um það. Svona er þetta víða um land.

Megintilgangur flutningsmanna, hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árna Þórs Sigurðssonar, sem mælti fyrir frumvarpinu, Álfheiðar Ingadóttur, Katrínar Jakobsdóttur, Kolbrúnar Halldórsdóttur, Þuríður Backman og þess sem hér stendur, er að flytja hér frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum um húsafriðun til að styrkja lagalegan grunn svo grípa megi inn í og friða hús. Ég tel reyndar afar brýnt að gera heildarúttekt á stöðu þessara mála því að mörg minni samfélög hafa ekki tök á því að gera það en einmitt í minni samfélögum geta þessi menningarverðmæti leynst.

Lokaorð mín, frú forseti, varðandi þetta mál eru þau að ég hefði viljað að hnykkt væri á, ekki aðeins húsum heldur einnig öðrum mannvirkjum sem lúta að mannvist. Við eigum ýmislegt sem lýtur að atvinnusögu þjóðarinnar, eins og bryggjur og útgerðaraðstöðu, ræktunarframkvæmdir, ræktunarsöguna í gegnum árin og aldirnar, túngarða o.s.frv. Þau eru svo mörg menningarverðmætin sem skipta okkur máli, ekki aðeins í nútímanum heldur í framtíðinni, þau eru hluti af þeim samfélagslega og þjóðfélagslega grunni sem við byggjum tilveru okkar á og er mikilvægt að halda til haga og gera sýnileg, sem eru síkvikur hluti af hinu daglega lífi okkar og ímynd.

Frú forseti. Ég lýk hér máli mínu og hvet til þess að þetta frumvarp okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um breytingu á lagaákvæðum um húsafriðun fái skjóta og góða afgreiðslu í þinginu.