135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

afkoma og fjárhagur sveitarfélaga.

[15:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort á að skilja þessi síðustu ummæli forsætisráðherra þannig að hann sé að biðjast undan því að þetta mál sé rætt á Alþingi, telji jafnvel ekki viðeigandi að það sé tekið upp og það verði ekki leyst úr ræðustóli. Ég hélt að fjárstjórnarvaldið og fjárlagavaldið væri enn á Alþingi en ekki einhvers staðar annars staðar, ekki úti í bæ. Þegar hæstv. forsætisráðherra vitnar í yfirlýsinguna frá 22. mars sl. þá minni ég hann á hvernig 1. liður hennar hljómar en þar segir að unnið verði að því að móta tillögur um fjármálareglur fyrir sveitarfélög þar sem unnið verði sérstaklega að því að hefta vöxt útgjalda sveitarfélaga og setja þak á skuldsetningu þeirra.

Það virðist vera aðalmarkmið að ramma sveitarfélögin af og koma í veg fyrir að verkefni á þeirra vegum aukist eða a.m.k. tekjur þeirra og ef þau gangast undir þessa þvingunarskilmála fyrri ríkisstjórnar þá sé hægt að fara að tala við þau. Þetta er þá væntanlega óbreytt stefna núverandi ríkisstjórnar og lofar ekki góðu, enda helsti málflutningur þingmanna hennar hér, samanber frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins að opna lagaheimildir til að lækka tekjur sveitarfélaganna en ekki auka þær en út á það gekk frumvarp þeirra um að afnema lágmarkshlutfall útsvars. Ég held því að hæstv. ríkisstjórn komist ekki upp með annað gera betur grein fyrir máli sínu að þessu leyti.