135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:35]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Ég heyri það, herra forseti, að ég þarf að lesa aftur fyrirvarann sem hv. þingmaður gerði, þá sveitarstjórnarmaður í Reykjavík, við tillögur nefndar sem skilaði inn frumvarpi til skipulagslaga og hefur verið til umræðu milli mín og Sambands íslenskra sveitarfélaga undanfarnar vikur og mun líta dagsins ljós á næstunni. Það er þá alveg nýr skilningur ef landsskipulagið, eða þær áætlanir sem talað er um í núgildandi lögum, er það sama og lagt er til í nýju frumvarpi. Það er þá algjörlega nýr lagaskilningur, hæstv. forseti.

Hvað varðar tækin eru auðvitað til viss tæki og ég hef nefnt þau hér. Þau verða nýtt eftir því sem þörf krefur. Við förum að lögum og reglum í þessu landi og við nýtum þau tæki sem við höfum sem stjórnvald, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, til að vinna að þeirri pólitík sem við viljum vinna að og það mun ég gera í (Forseti hringir.) ráðuneyti umhverfismála.