135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Út af örfáum atriðum í máli hv. þingmanns vildi ég segja eftirfarandi: Það er skylt að fara mjög varlega með heimildir stjórnarskrárinnar til að setja bráðabirgðalög. Stjórnarskrárbreytingin frá 1991 gekk m.a. einmitt út á að tryggja að í því yrði farið með varúð.

Hins vegar var það jafnframt skýrt að bráðabirgðalagaheimildin var ekki afnumin, eins og einhverjir vildu halda fram á þeim tíma, enda hafa verið gefin út allnokkur bráðabirgðalög síðan þótt þau séu miklu færri en á sambærilegu tímabili fyrir 1991. Efnislega er það mat bráðabirgðalöggjafans hvort brýn nauðsyn sé fyrir hendi eins og kveðið er á um í stjórnarskránni að þurfi að vera. Það getur enginn annar lagt það mat á málið en bráðabirgðalöggjafinn sjálfur. En hann gerir það í trausti þess að hann hafi meiri hluta Alþingis á bak við sig í málinu. Það gerði ríkisstjórnin í sumar, viðskiptaráðherra fyrir hennar hönd, þegar gefin voru út umrædd bráðabirgðalög sem við fjöllum núna um.

Ég tók auðvitað ábyrgð á því fyrir minn flokk að hann stæði heill og óskiptur á bak við þetta mál og mundi tryggja því sín atkvæði á Alþingi. Sama gerði Samfylkingin þannig að það lá fyrir að ekki hafa verið gefin út bráðabirgðalög sem ekki hafa meirihlutastuðning á Alþingi, enda hefur það þegar komið í ljós við 2. umr. um málið á Alþingi að mikill meiri hluti er fyrir þessu máli. Það var því tryggt enda getur ríkisstjórn sem gefur út bráðabirgðalög án þess að meiri hluti sé á bak við þau ekki setið lengur að mínum dómi. Hefði það komið í ljós að þessi bráðabirgðalög hefðu ekki haft stuðning er náttúrlega ljóst að það hefði haft víðtækar pólitískar afleiðingar.