135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:16]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni fyrir að svara spurningum mínum. Mig langar að minna hann á afstöðu hans sjálfs frá því fyrir fjórum árum í þinginu árið 2003. Þá var niðurstaða hans og hans flokksmanna og alls minni hluta landbúnaðarnefndar á þeim tíma á þann veg að bráðabirgðalagasetningin þá stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Hv. þingmaður telur sig með réttu hafa tök á því að leggja mat á það hvort heimildinni hafi verið rétt beitt eða ekki.

Ég hlýt því að spyrja: Ef hann telur að rétt hafi verið að beita heimildinni nú en ekki þá í hverju liggur munurinn? Ég minni á að hann rakti þá á þingi dóm Hæstaréttar, sem þá var tiltölulega nýr, sem samþykkti með þremur atkvæðum gegn tveimur að tiltekin bráðabirgðalög hefðu staðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að niðurstaða minni hluta Hæstaréttar, þessara tveggja sem töldu að heimildin hefði ekki verið fyrir hendi þegar þau bráðabirgðalög voru sett sem voru lögð í dóm, væri sú að ef ríkisstjórnin teldi nauðsynlegt að beita bráðabirgðalagaheimildinni væri henni í raun skylt eftir breytingarnar 1991 að kalla saman þing. Það var afstaða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem hann dró af afstöðu minni hluta Hæstaréttar.

Þess vegna held ég að rétt væri, til að varpa ljósi á málið, að hv. þingmaður skýrði afstöðu sína nú í samanburði við niðurstöðu sína fyrir fjórum árum.