135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að draga saman hvað er öðruvísi í þessu máli og frábrugðið bráðabirgðalagasetningunni 2003 sem gerir það að verkum að afstaða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er önnur núna en hún var þá.

Hann segir að það séu verulegir fjárhagslegir hagsmunir núna sem ekki voru þá. Mér sýnist það samandregið vera vendipunkturinn í málinu. Þá spyr ég hv. þingmann: Hverjir eru fjárhagslegu hagsmunirnir núna? Það hefur ekki komið fram neitt mat á þá hvorki í umræðunni né á þingskjölum. Það kemur fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að árið 2003 voru fjárhagslegir hagsmunir taldir vera 28 milljónir, það voru hinir fjárhagslegu hagsmunir sem hann taldi ekki nægilega stóra til að réttlæta setningu bráðabirgðalaga þá. Ég spyr: Hverjir eru þeir núna í fjárhæðum talið?

Við getum auðvitað reynt að nálgast það. Það er húsaleiga á 350 íbúðum í nokkra mánuði sem eru hinir fjárhagslegu hagsmunir, þ.e. þeir sem tóku íbúðirnar á leigu borga lægri húsaleigu fyrir vikið en ella hefði orðið ef ekki hefðu verið sett bráðabirgðalög og lög sett seinna sem nokkrum mánuðum nemur. Það eru væntanlega hinir fjárhagslegu hagsmunir sem ég sé í málinu. Ég sé ekki að þeir séu stærri í fjárhæðum talið en var árið 2003 og voru þeir þá ekki há fjárhæð.