135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

131. mál
[17:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst eðlilegt að þessar upplýsingar kæmu hér fram og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma þeim á framfæri. Ég tek það þá þannig að það verði þá frekar ríkislögmaður sem verði sendur í leiðangra til að reyna að ná þessu inn en einhvern veginn segir mér svo hugur að það muni hafa ósköp lítið upp á sig að ætla að fara að reyna að hafa upp á þessum starfsmönnum og ganga að þeim ef ekki er um einhvers konar sameiginlega ábyrgð einhvers aðila að ræða í þessu, hvort sem það væri þá starfsmannaleiga eða undirverktaki eða hvað það nú væri þá held ég að það verði seint sótt.

Ég vil taka undir það sem hér kom fram í máli 11. þm. Suðvest. að þetta var að sjálfsögðu aldrei neitt sem átti að koma mönnum á óvart. Þegar tilboð Impregilo var opnað varð strax ljóst að það gerði ekki ráð fyrir því að greiða laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og það var augljóst að hið lága verð var þannig fengið að það átti að stytta sér leið eins og mögulega var hægt og byggja á launakjörum af allt öðrum heimi en þeim sem við þekkjum. Þetta viðurkenndi hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun. Landsvirkjun sá þegar starfsmenn hennar opnuðu tilboðið og fóru ofan í forsendur þess að ekki var gert ráð fyrir íslenskum kjarasamningum. Þetta staðfesti þáverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Hann sagði að Landsvirkjun hefði hækkað samningsverðið eitthvað til að koma til móts við að augljóslega var ekki gert ráð fyrir íslenskum kjarasamningum.

Hér hljóta menn því líka að spyrja: Hver er ábyrgð hins opinbera fyrirtækis og hver er ábyrgð þáverandi stjórnvalda, þar á meðal Halldórs Ásgrímssonar, fyrrv. hæstv. ráðherra, sem hrósaði hinum ítalska verktaka sérstaklega fyrir að bjóða svona lágt því að annars hefði aldrei verið ráðist í virkjunina. Þessa sögu þarf alla saman að gera upp, virðulegi forseti, til þess að þeir geti þá borið ábyrgð sem hana eiga að bera og menn læri af mistökunum sem vonandi verða aldrei aftur gerð.