135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[19:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs af því að ég var að hugleiða rök hv. þingmanns sem heldur því fram eða líkti því við að almenningur væri upplýstur um greiðslur einstaklinga í sameiginlega sjóði, við upplýsingakerfi og aðfarir sem áttu sér stað í Austur-Evrópu fyrir nokkrum árum. Þar var um að ræða ákveðnar aðgerðir lögregluyfirvalda og yfirvalda. Hér er um það að ræða að almenningur hafi upplýsingar og veiti á þann hátt aðhald gagnvart þeim sem greiða opinber gjöld. Það er eiginlega frekar fælingarmáttur í því að þessar upplýsingar komi fram.

Mér þóttu það afar athyglisverð sjónarmið hjá hv. þingmanninum að leggja að jöfnu annars vegar heimildir lögreglu og ríkisvalds og hins vegar að almenningur sé upplýstur um hvað einstaklingar hér á landi greiða í opinbera sjóði, samtryggingarkerfi samfélagsins. Mér blöskraði svo þessi málflutningur, virðulegi forseti, að ég varð að kveðja mér (Forseti hringir.) hljóðs og biðja um andsvar og biðja hv. þingmann um að útskýra þetta örlítið frekar.