135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:28]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að túlka það svo að ég mæli gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Ég er að mæla með viðbót við það sem ríkisstjórnin hefur kynnt og er að vinna með. Þess vegna er líka ábendingin góð eins og kom fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni.

Ég hef ekkert farið í launkofa með það að ég tel mótvægisaðgerðirnar ekki burðugar. Það þarf að hnykkja betur á og setja hrygg í málið. Ríkisstjórnin er að vinna í þeim málum þannig að ekki er útséð hvað kemur endanlega út úr því.

Allar góðar ábendingar eru góðar og þeim ber að fagna. Fyrir utan að þetta er, eins og ég sagði, rökrétt og skynsamleg tillaga hjá hv. þingmönnum er líka skemmtileg hugmyndafræði hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni að leggja svolítið saman að jöfnu að fjölga þorskhausum og fjölga í ríki Framsóknarflokksins. Á hvoru tveggja þurfum við á að halda.

Þetta er mál sem þarf að fylgja eftir og vinna að framgangi þess. Það eru ótalmörg atriði sem þarf að hnykkja á í þessu. Enn hefur ekki verið útfært í sambandi við mótvægisaðgerðirnar hvernig brugðist verður við gagnvart sveitarfélögum landsins nema í mjög litlum mæli eftir því sem hefur til að mynda komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra.