135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:43]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Örfá orð sem andsvar við lokaorðum hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, sem oft hefur rætt kvótakerfið í þessum stól. Ég tel það þessu máli óviðkomandi. Það gætir mikils misskilnings að herma allar raunir landsbyggðarinnar upp á kvótakerfið. Ég held okkur miði lítið áfram með því að tala um eitthvað sem hefði mátt gera öðruvísi fyrir mörgum árum.

Athyglisverðast í þeirri umræðu er að þeir sem gagnrýnt hafa þetta kerfi, þar á meðal hv. þm. Grétar Mar Jónsson og flokksbræður hans, hafa hvorki hér í þessum ræðustól, svo ég hafi heyrt, né annars staðar lagt fram raunhæfar lausnir til úrbóta. Það skiptir nokkru máli.