135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:55]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem verið hefur um þessa þingsályktunartillögu og jákvæðar undirtektir við hana frá öllum sem talað hafa og það þykir mér vænt um.

Varðandi það hvort við getum í framhjáhlaupi jafnframt afgreitt kvótakerfið, háhraðatengingar og vanda sveitarsjóða í stuttum andsvörum og svörum þá er mér til efs að þau mál séu svo léttvæg að þau verði afgreidd þar. Ég vil aftur á móti koma að því vegna orða hv. þm. Atla Gíslasonar um að ekki sé hægt að sjá vanda hafnanna nema kenna þar kvótakerfinu um, að það er þá að þeim forsendum gefnum að afli sem berst á land í heildina sé minni núna vegna kvótakerfisins en ella væri. (GMJ: Það er alveg augljóst.) Þessu er ég algjörlega ósammála og tel að jafnvel þótt hv. þm. Grétar Mar Jónsson segi það augljóst að fyrir því séu engar sannanir.

Ég ætla aftur á móti ekki að taka svo stórt upp í mig að fullyrða að kvótakerfið hafi ekki getað haft þessar afleiðingar. Það er mjög miður ef svo er og þá vantar eitthvað mikið inn í þekkingu okkar á lífríkinu. Það er alveg ljóst að við þurfum að vinna þar mun betur og ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni að það þarf að skoða hluti eins og það hvernig botninn er skrapaður. En ég sé ekki að hægt sé að kenna kvótakerfinu um það vegna þess að fyrir tíma þess var mönnum einnig heimilt að skrapa botninn og ég vara menn við fullyrðingum sem þessum. Ég held að það sé líka mikilvægt í umræðu eins og þessari að við getum einbeitt okkur að því sem við erum sammála um og unnið út frá því en drögum ekki inn í umræðuna um tekjutap hafnarsjóða öll þau atriði sem menn kunna hugsanlega (Forseti hringir.) að vera ósammála um.