135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarpið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur mælt fyrir, til laga um háskóla á Ísafirði, er um margt ágætt og ég styð hugmyndin að baki því og markmiðin í því.

Það hefur komið fram áður á Alþingi að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum hér lagt fram þingmál á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga nokkur undanfarin ár, um að varið verði sérstakri fjárupphæð á fjárlögum til Háskóla Vestfjarða á Ísafirði. Með því hefur verið að undirstrika að eitt fyrsta skrefið í þeim efnum er að slík stofnun fái sjálfstætt fjárlaganúmer.

Útfærslan sem hér er kynnt, að leggja hér fram sérstakt frumvarp til laga fyrir slíkan skóla er mjög gott og góðra gjalda vert. Ég ætla ekki að fara í einstakar efnisgreinar þessa frumvarps. Það er meira tæknilegt atriði að mínu mati. Málið er sett fram með heildstæðum hætti og markmið þess eru skýr, að stofna skuli sjálfstæðan háskóla á Ísafirði eins og flutningsmaður nefndi í ræðu sinni.

Sjálfsagt hefði verið enn betur til fundið hefðum við reynt að ná breiðari samstöðu um flutning þessa máls. En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur áður flutt, ásamt öðrum þingmönnum, þingsályktunartillögu um stofnun háskóla á Ísafirði og því er nú fylgt eftir.

Það hefur verið eitt stærsta baráttumál Vestfirðinga, Ísfirðinga, og í rauninni allra velunnara Vestfjarða, að stofnaður verði sjálfstæður háskóli á Ísafirði. Ég minnist þess að fyrir kosningarnar 2003 var það eitt af stefnumiðum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í kosningunum það ár. Um það hefur síðan verið ályktað æ ofan í æ af hálfu samtaka á Vestfjörðum, af hálfu fjórðungssambands Vestfirðinga og nú síðast af hálfu bæjarstjórnar Ísafjarðar. Í-listinn á Ísafirði hefur haft það sem sérstakt baráttumál, þ.e. framboðslisti Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra. Síðan hefur þetta verið samþykkt eins og hv. þingmaður gat um, samþykkt sem áskorun og ályktun af allri bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Það eru mikil vonbrigði að í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fram skuli stofnun þessa skóla ekki vera sett fram sem skilgreind stærð í fjárlögum næsta árs. Í umræðum svokallaðrar Vestfjarðanefndar, um aðgerðir til að styrkja atvinnulíf, búsetu og samfélag á Vestfjörðum, hefur stofnun háskóla á Ísafirði verið sett ofarlega og oft og tíðum hefur það verið númer eitt á listanum. Á fjórðungsþingi Vestfirðinga fyrir skömmu var einmitt aftur ítrekuð ályktun um stofnun sjálfstæðs háskóla á Ísafirði.

Ég var á framboðsfundum á Vestfjörðum, á Ísafirði, fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég man ekki betur en að minnsta kosti þingmenn annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, væru afdráttarlausir í sínum yfirlýsingum um að eitt fyrsta skrefið sem ætti að taka strax í haust væri stofnun háskóla. Þeir tóku undir með okkur öðrum sem lögðum þunga áherslu á þetta mál. Ef ég man rétt, ég hygg að ég geti grafið það upp, gaf meira að segja frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins vilyrði í þá átt.

Það er sitt hvað að vera með háskólasetur eins og nú er eða sjálfstæðan háskóla. Háskólasetrið sem nú er reynir að vinna sem best við þau skilyrði sem því eru sköpuð en það hefur takmarkaðar forsendur til að vinna að rannsóknum og kennslu á eigin vegum. Það er fremur samnefnari og farvegur fyrir aðkomu annarra aðila. Það þýðir að setrið er mjög veikt til þess að axla eigin ábyrgð og geta stýrt þróun með skipulegum hætti áfram, hvort heldur það er til kennslu eða rannsókna.

Á heimasíðu háskólasetursins, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vísaði til, er undirstrikað að setrið er ekki sjálft með kennslu- eða rannsóknastöður. Hins vegar er það í náinni samvinnu við allar rannsóknarstofnanir á svæðinu. Það styrkist með þeim hætti.

Hv. flutningsmaður, Kristinn H. Gunnarsson, vitnaði til stofnunar Háskólans á Akureyri. Þar var lengi vel sú stefna mjög sterk að útilokað væri að Háskólinn á Akureyri gæti starfað á sjálfstæðum forsendum, hann yrði að vera útibú eða deild frá Háskóla Íslands eða öðrum háskólum sem stæðu að honum í einhverju samstarfi. Þessi stefna var í rauninni búin að drepa hugmyndina um Háskóla á Akureyri en sem betur fer höfðu aðilar innan stjórnsýslunnar kjark og þor til að taka þá ákvörðun að stofna sjálfstæðan háskóla á Akureyri. Ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að ef það hefði ekki verið gert hefði ekki orðið neinn verulegur fiskur í þeirri stofnun.

Vandi Háskólans á Akureyri hefur lengst af síðan verið sá að hann hefur átt erfitt með að byggja upp sínar eigin rannsóknastöður og sína eigin rannsóknastarfsemi. Skipulagið hefur verið knúið fram með þeim hætti að aðrar rannsóknastofnanir, sem eiga höfuðstöðvar sínar í Reykjavík, hafa verið með útibú á Akureyri sem síðan hafa verið fléttuð inn í starfsemi háskólans. Háskólinn á Akureyri hefur sem slíkur ekki borið stjórnsýslulega ábyrgð, hvorki fjárhagslega né verkefnalega, á þeim rannsóknaverkefnum sem þar hafa lengst af verið stunduð. Þetta hefur gert Háskólanum á Akureyri erfitt fyrir að þróast sem háskóli.

Ég þekki það af reynslu minni við að byggja upp Hólaskóla, sem nú hefur fengið lagalega stöðu sem háskóli, að ég þurfti ætíð að berjast við þessi sjónarmið, einkum frá fólki sem taldi sig hafa sérstakt vit á þessum hlutum, var gjarnan á höfuðborgarsvæðinu og taldi ófært að sinna starfsemi, rannsóknum og kennslu, á háskólastigi með ábyrgum hætti svo vel færi úti á landi án þess að einhver í borginni bæri ábyrgð á þeim eða væri einhvers konar forsjáraðili. Þetta er hin stöðuga forsjárhyggja sem við mætum frá miðstýrðum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu, við þekkjum það ósköp vel. Þetta var það sem maður þurfti helst að takast á við. Þá var leiðin sú að maður þurfti að vera búinn að sanna sig meira en fyrir fram og ná verkefnunum helst áður en nokkur vissi af því til þess að standast stofnunum á höfuðborgarsvæðinu snúning, þær höfðu náttúrlega aflið með sér.

Ef við hefðum ekki farið þá leið að leggja áherslu á að þau verkefni sem byggðust upp við Hólaskóla væru á forsendum skólans sjálfs, og hann hefði forræði yfir þeim sem flestum, hefðum við náð skammt, ef við hefðum algjörlega átt að lúta því sem aðrir vildu leggja okkur til í þeim efnum. Þetta þarf að hafa í huga á Ísafirði. Þar hafa allnokkrar rannsóknastofnanir útibú sem starfa í tengslum við háskólasetrið, við getum nefnt Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Snjóflóðasetrið, á vegum Veðurstofunnar, o.s.frv. Ég tel það forsendu fyrir því að þetta starf geti blómgast og vaxið og komið að fullum notum, bæði inn á við og út á við, að þessar stofnanir heyri með beinum hætti undir háskóla á Ísafirði, stjórnsýslulega, fjárhagslega, ábyrgðarlega og einnig faglega. Menn taka mikla áhættu með því að stilla upp útibúum frá mörgum stofnunum til hliðar við háskóla eða háskólasetur sem á að fara að byggja upp á eigin forsendum. Þeir nýta þá ekki þá krafta sem verið er að leggja inn í þetta samfélag í formi vísindastarfa, nýta það ekki með þeim hætti að færa það saman stjórnsýslulega og Háskóli Vestfjarða ætti að hafa yfirumsjón með því.

Áður en við förum lengra í að fylgja eftir hugmyndum um uppbyggingu á rannsóknum, þróunarstarfi og kennslu á háskólastigi á Vestfjörðum er afar brýnt að um þetta sé stofnuð ein stofnun, hún fái þessi verkefni, geri samninga um skilgreind verkefni við Hafrannsóknastofnun, við þær stofnanir sem nauðsynlegt er að gera samninga við um skilgreind verkefni en beri sjálf ábyrgð á því að þau vaxi og þróist í samstarfi við þá aðila.

Talað er um að vandi stofnana á Íslandi sé sá hvað þær séu litlar, að stofnanir eins og háskóli á Ísafirði, háskóli á Hólum eða háskóli á Akureyri séu svo litlar að þær geti ekki starfað sem slíkar. Menn vitna þá gjarnan í einhverja heimsmynd hvað það varðar. Þá er rétt að hafa í huga að hver einasti háskóli á Íslandi, eða háskólastofnun, er mjög lítill í alþjóðlegu samhengi. Styrkur starfa á þessum vettvangi, hvort sem er nám eða rannsóknir á háskólastigi, felst í styrk og frumkvæði einstaklingsins og hvernig hann nýtir sitt nánasta samfélag og alþjóðasamfélagið til þess að vinna að málum. Einstaklingurinn skiptir gríðarlega miklu máli og hann er okkar styrkur. Það er hann sem við eigum að rækta og gefa tækifæri. Litlar stofnanir hafa sveigjanleika, þær eru fljótar að laga sig að breyttum aðstæðum, þær eru fljótar að taka til sín strauma, finna hvað er efst á baugi eða hvað er að gerast í samfélaginu. Slíkar stofnanir verða því gríðarlega mikill þáttur í daglegu lífi, daglegri sýn og daglegri vitund samfélaga. Háskóli á Ísafirði yrði þetta allt ef hann yrði stofnaður.

Ég tel að stjórnvöld séu að leika sér að eldinum með því að stofna ekki háskóla á Ísafirði, með því að láta hann áfram berjast sem háskólasetur. Hann hefur enga stjórnsýslulega stöðu, hann er ekki með viðfangsefnisnúmer á fjárlögum. Hann hefur því mjög takmarkaðan sjálfstæðan grunn til þess að byggja á. Hins vegar notfæra ýmsir aðrir sér þá velvild og þær væntingar sem að baki búa með því t.d. að efla útibú frá hinum og þessum stofnunum. Það er svo sem gott en styrkinn á að nota, umræðuna, viljann til að láta þetta gerast, núna til þess að stofna háskóla á Ísafirði. Hann fær síðan tækifæri til að þróast á sínum forsendum, á forsendum heimamanna, á forsendum þeirra auðlinda og þess umhverfis sem þar er og skapar honum sérstöðu.

Frú forseti. Ég styð þetta afdráttarlaust. Ég tel að með því að verða ekki nú þegar við óskum heimamanna um stofnun háskóla á Vestfjörðum sé í rauninni verið að svíkja þau loforð og fyrirheit sem þar hafa verið gefin á undanförnum vikum og missirum. Þetta var eitt stærsta loforð sem gefið var fyrir síðustu kosningar á Vestfjörðum, að minnsta kosti þar sem ég var á framboðsfundum. Þetta hefur líka verið ein helsta krafa íbúa á Vestfjörðum nú í sumar og haust, jafnvel í ljósi þess að þar eru erfiðleikar og mikilvægt að styðja það sem þar er í gangi og þar er verið að byggja upp. Þetta voru ein stærstu fyrirheit sem hafa verið gefin íbúum og samfélögum á þessum svæðum og það er svo sannarlega verið að leika sér að eldinum ef ekki á að verða við þeim óskum og standa við þau fyrirheit og stofna Háskóla Vestfjarða á Ísafirði nú strax í vetur. Fjárlög fyrir árið 2008 eiga einmitt að taka af allan vafa í þeim efnum. Við bjóðum hættunni heim ef við rennum út í eitt ár enn í óvissu. Aðeins í gegnum fjárlög og fjárveitingar gerast þessir hlutir og þar verða þeir að koma fram.

Frú forseti. Ég læt ræðu minni lokið. Ég ítreka að það er eitt stærsta mál Vestfjarða og samfélagsins alls að við stöndum myndarlega að stofnun og stöndum myndarlega á bak við háskóla á Ísafirði og gefum honum tækifæri til að vaxa og þróast á þeim forsendum sem hann getur skapað sér, bæði hvað varðar samfélagið og auðlindirnar. Möguleikarnir eru miklir.