135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:04]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú ekki svo að ég stæði við samningaborðið á Þingvöllum þegar ríkisstjórnin var sett af stað þannig að var ég ekki spurður sérstaklega hvað þetta varðar. Aftur á móti vil ég taka fram að nefndin sem sett var á stofn er framkvæmdanefnd, hún er ekki til að svæfa málið. Talað er um nefnd sem á að vinna að framtíðarsýn háskóla- og rannsóknarstarfs á Vestfjörðum og hún er einmitt stofnuð í framhaldi af tillögum sem komu frá Vestfjarðanefndinni þannig að ég bind mjög miklar vonir við þessa nefnd.

Aftur á móti ætla ég mér ekki það hlutverk að svara nákvæmlega, þrátt fyrir mikla umræðu á undanförnum árum, með hvaða hætti eigi að gera þetta. Mér finnst eðlilegt að það komi fram frá nefndinni sem vönduð tillaga og ég áskil mér þá rétt til að hafa skoðun á því þegar þar að kemur. Ég lít ekki á nefndina sem nefnd til að byrja á málinu upp á nýtt heldur nefnd til framkvæmda í framhaldi af öllum þeim tillögum sem hafa verið fluttar á undanförnum árum, misjafnlega útfærðar, því að við skulum ekki láta eins og það sé bara ein tillaga uppi um það hvernig eigi að gera þetta. Hv. þm. Jón Bjarnason veit það m.a. frá yfirmanni Háskólasetursins á Ísafirði að hann gerði í sjálfu sér ekki greinarmun á því hvort þar yrði áfram háskólasetur eða háskóli þegar við heimsóttum stofnunina nýlega. Eftir sem áður ætla ég að undirstrika það að ég tel réttara að þar verði sjálfstæður háskóli, a.m.k. til að byrja með, vegna þess að ég held að það tryggi sjálfstæði og tryggi að fjármagnið fari ekki yfir á Reykjavíkursvæðið eins og svo margt annað.