135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því hversu jákvætt hefur verið tekið undir þetta mál efnislega sem við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum flutt, um stofnun háskóla á Ísafirði. Það fer ekki á milli mála að það yrði mikil lyftistöng fyrir Vestfirði í heild að háskóli yrði formlega stofnaður á Vestfjörðum. Háskólasetrið sem þar starfar hefur vissulega verið góð viðbót við það sem fyrir var og við höfum auðvitað bundið við það vonir að það fengi að þróast til þess að verða sjálfstæður háskóli. En okkur hefur fundist miða frekar hægt.

Þess vegna ákváðum við að flytja þetta mál, frumvarp sem væri þá einn valkosturinn til þess að stofna háskóla á Ísafirði með formlegum hætti sem hefði lagastoðir og lagagrunn til að byggja á þannig að hægt væri að fara af stað.

Ég heyri frá ríkisstjórninni að málið verið sett í nefnd og fagna því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson skuli orða það svo að það sé framkvæmdanefnd sem ekki sé ætluð til þess að svæfa málið. Ég tel að það sé gott að fá slíka yfirlýsingu hér í umræðu um þetta mál. Ég vænti þess úr því að slík viðhorf hafi verið rædd innan ríkisstjórnarinnar að ekki standi til að stöðva framþróun þess að stofna háskóla á Ísafirði og það sé eingöngu verið að skoða framkvæmdarhliðina á því hvenær og hvernig verði að því staðið. Þá sé í raun og veru komin fram viljayfirlýsing frá ríkisstjórninni um að málið fái framgang.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða afgreiðslu málið fær í hv. nefnd og það væri náttúrlega óskandi að slíkri framkvæmdarnefnd sem er að störfum á vegum ríkisstjórnarinnar tækist að vinna hratt. Það er til mikið af nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar sem tekst að vinna afar hægt og það er engin sérstök eftirsókn í að fá slíkar nefndir, sem hvorki ná að lifa né deyja. Þær svæfa ekki, þær veltast með málin árum saman og það kemur engin lausn fyrr en seint og um síðir. Ég vona því að í þeim orðum sem hér voru sögð, hæstv. forseti, sé full meining af hálfu fulltrúa þeirra flokka sem standa að ríkisstjórn Íslands.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að háskóli á Ísafirði er ný stoð undir byggðina á Vestfjörðum. Stoð sem eflir byggðina. Það hefur sýnt sig annars staðar þar sem háskólar hafa verið stofnaðir eða eru starfandi að þeir hafa orðið til mikils góðs fyrir þau byggðarlög og eflt þar byggð og menntunarstig og haft mjög mikil margfeldisáhrif á þeim landsvæðum þar sem þeir starfa.

Þess vegna bindum við auðvitað vonir við það, flutningsmenn þessa máls, að það fái skjóta afgreiðslu. Það mun væntanlega koma í ljós í hv. nefnd hvernig menn vilja meðhöndla þetta mál. En að sjálfsögðu tökum við því fagnandi ef stjórnarliðar vilja leggja málinu lið og erum tilbúnir að skoða það með þeim með hvaða hætti mætti að því standa, eins og hv. 1. flutningsmaður Kristinn H. Gunnarsson sagði réttilega hér í pontu.

Ég tel að rétt sé að vekja athygli á því að starfsemi háskóla á Ísafirði mun væntanlega reyna að byggja á sérstöðu Vestfjarða, eins og segir í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

Kjarninn í starfsemi háskóla á Ísafirði er kennsla og rannsóknir. Ætla má að námskrá háskólans muni taka sérstakt mið af sérstöðu Vestfjarða.

Þar komum við auðvitað að sjávarútvegi á ýmsum sviðum og sérstöðu Vestfjarða að því leyti til sem er mikil og örugglega meiri en margur gerir sér grein fyrir. Ég hef t.d. ekki viss um að það séu mjög margir Íslendingar sem hafi áttað sig á því að telja firðina fyrir vestan. Þeir eru 49 frá Gilsfirði í Hrútafjarðarbotn. Hvorki fleiri eða færri en 49 firðir.

Ég hef stundum spurt að því í greinum sem ég hef skrifað um lífríki sjávar og Vestfjarða, hvers virði einn slíkur fjörður væri í lífríkinu. Hvað gefur hann af sér? Hvað leggur hann til? Við vitum svona sæmilega, eða betur, hvað firðir, fjöll og dalir leggja til, þ.e. það sem er ofan sjávarmáls. En um það sem er neðan sjávarmáls vitum við allt of lítið eins og dæmin sanna og höfum í raun og veru ekki stundað kerfisbundnar rannsóknir á því að reyna að átta okkur á því hvað einn fjörður getur gefið af sér t.d. í stofnstærð ákveðinna nytjastofna eða yfirleitt hvaða þýðingu vistkerfi eins fjarðar hefur fyrir viðhald og viðgang fiskstofna eða samspil sjávar og náttúru.

Ég tel að þetta séu mjög mikilsverðar spurningar og t.d. í umræðu um samgöngumál tók ég dæmi af þveruninni í Mjóafirði í Djúpi þar sem ég benti réttilega á að það væri afar verðugt rannsóknarefni að rannsaka þann fjörð. Ég teldi reyndar að það hefði átt að sjá til þess að straumakerfið í honum hefði haldist óbreytt með því að gera ákveðnar ráðstafanir í þeirri fyllingu sem byggð var í svokölluðu Norðursundi. En því var ekki sinnt og sundinu lokað. Ég held að það væri t.d. afar verðugt rannsóknarefni að skoða lífríki þessa fjarðar og sjá hvernig það mun breytast næstu 10–15 árin við þetta mannanna verk. Það er ekki þar með sagt að það verði til skaða en það mun örugglega breytast.

Þetta eitt og sér gæti verið mjög lærdómsríkt verkefni um það hvernig að vinnst og hvaða áhrif athafnir mannsins hafa á slíkt lífkerfi því ég tel að það muni setja nokkurt samasemmerki þess að taka einn slíkan fjörð í góða vöktun við marga aðra firði í Ísafjarðardjúpi því það vill svo til að þeir liggja allir í sömu átt. Þeir ganga allir til suðvesturs inn úr vestanverðu Ísafjarðardjúpi.

Þetta er þekkt uppeldsslóð fyrir seiði, marga nytjastofna og það veit raunverulega enginn hvað einn slíkur fjörður gefur af sér. Þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað. Það hefur aldrei verið leitast við að svara henni.

Menn hamast við að telja rjúpur og friða rjúpur á Reykjanesskaganum og komast þá að því 15 árum seinna að þeim fjölgar ekki neitt þó að þær séu friðaðar. En þeim fjölgar heldur ekki annars staðar þar sem þær eru skotnar. En menn vita ekkert af hverju.

Vestfirðir eru mikil náttúruperla og ég tel tvímælalaust að háskóli á Vestfjörðum muni sérhæfa sig í því að sinna þekkingu sem snýr m.a. að sjávarútvegi og umhverfismálum og umhverfisvernd, að ég tali nú ekki um það merkilega sund sem er á milli Vestfjarða og Grænlands og er talið eiga þátt í því að straumakerfi veraldar er eins og það er þegar Golfstraumurinn gengur til norðurs og sekkur svo til botns norður af landinu og myndar það sem margir vísindamenn kalla hjarta eða dælustöð Atlantshafsins.

Þannig að það er af nógu af taka og það er nóg sérstaða til að vinna með. Við ættum að geta þróað það með skynsamlegum hætti á komandi árum. En til þess þurfum við að fá að taka það frumkvæði sem við höfum alla burði til að geta tekið. Við höfum fólk, áhugasamt fólk sem vill vinna við þessi störf, við höfum húsnæði og þetta er tvímælalaust ein af betri leiðum í því að styrkja byggð á þessu landsvæði.

Ég segi því að lokum, hæstv. forseti: Ég vona að það hafi verið réttnefni að menn hafi sett framkvæmdanefnd í þetta mál en ekki nefnd sem mun svæfa málið til lengri tíma.