135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:23]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða. Svo virðist sem hv. þingmaður kveinki sér undan þeim málflutningi að hann sé að berjast gegn mannréttindum og stjórnarskrá. Hann segir að ekki skuli efna til ófriðarbáls á vinnumarkaði. Hvað hefði hann sagt í árdaga verkalýðsbaráttunnar þegar verkalýðurinn stofnaði stéttarfélög og ruggaði bátnum til að krefjast betri kjara og réttinda handa sjálfum sér? Það getur verkalýðurinn ekki nú því að allt er orðið niðurnjörvað eins og í Sovét. Það er þó ekki víst að fyrirkomulagið sem við fundum upp fyrir nokkrum áratugum eigi að gilda til eilífðar.

Það er firra að halda að Sjálfstæðisflokkurinn banni mér eitt og annað og ég hafi þess vegna ekki flutt frumvarp í tvö ár. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei bannað mér eitt eða neitt enda dettur honum það ekki í hug. Ég flyt mál þegar ég hef orku og tíma til þess og flyt jafnframt mörg önnur mál. Það má því vel vera að á þessum tveimur árum hafi ég ekki haft tíma til þess. Þetta mál flyt ég vegna þess að það er hugsjónamál. Það er spurningin um hvort einstaklingurinn geti stofnað stéttarfélag eða látið það vera og sé ekki skikkaður til að greiða í stéttarfélag sem hann er á öndverðum meiði við.