135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:25]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hefði verið uppi þegar verkalýðshreyfingin stóð í réttindabaráttu sinni hefði ég aldeilis tekið þátt af fullum krafti. (PHB: Hefðirðu verið réttu megin?) Barátta hv. þingmanns snýst ekki um réttindi verkafólks, (Gripið fram í.) því fer víðs fjarri. Með þessu frumvarpi á að sundra fylkingum launafólks svo sú atvinnukúgun sem viðgengst í þjóðfélaginu geti gengið fram óáreitt. Menn þora ekki að tjá sig í vinnunni eða að standa upp. Menn þora ekki að sýna þá reisn sem þeir sýndu áður fyrr vegna þess að það bitnar á þeim. Ég hef hrósað hv. þingmanni fyrir staðfestu sína í þessu máli en ég er fullkomlega ósammála honum og hef fært fyrir því rök að sú grein sem um ræðir sé ekki brot á stjórnarskránni. Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals um það að þetta sé hugsjónamál hjá honum og gæti sagt að þetta séu skrýtnar hugsjónir en ég geri það ekki. Ég óska þess hjartanlega að hv. þingmaður forgangsraði hugsjónamálum sínum með öðrum hætti og taki upp þau sem máli skipta en reyni ekki að leggja að verkalýðshreyfingunni eða koma áfengi að ungmennum.