135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:27]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að reyna að forgangsraða hugsjónum hv. þingmanns. Hann má hafa þær í þeirri röð sem hann vill. Hv. þingmaður talaði ekki um skattlagningarvandann, að félagsfundur í stéttarfélagi geti ákveðið hvaða gjald sem er, annaðhvort sem prósentur eða krónutölu. Það er ekkert í lögunum sem hindrar það. Þeir geta ákveðið að félagsgjaldið sé 100 þús. kr. á mánuði eða 100% af launum eða hvað sem er. Hvernig stenst það ef hv. þingmaður ber svona mikla umhyggju fyrir stjórnarskránni?

Hann segir að ég gæti ekki hagsmuna verkafólks. Það er ekki verkafólk sem ég berst fyrir eða ræðst á, það eru stéttarfélög. Verkalýðsrekendur eru allt annað en verkafólk.

Frumvarpið gengur út á frelsi einstaklingsins til að velja sér stéttarfélag eða láta það vera eins og stjórnarskráin segir til um. Samkvæmt frumvarpinu ber honum að greiða til stéttarfélags sem hann hefur ef til vill ímugust á. Hann skal samt halda uppi starfseminni og greiða fyrir skoðanir forustumanna viðkomandi stéttarfélags eða stéttarfélagasambanda eins og BSRB.