135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:32]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Atli Gíslason fór yfir það hversu oft áður hv. þm. Pétur Blöndal hefði flutt þetta mál. Hann fór líka yfir það hverjir hefðu talað og raunar hve fáir hefðu talað. Ég skildi það á þann veg að hann teldi málið þar með ekki nógu athyglisvert til að leggja það fram á þingi. Ég vil benda hv. þingmanni á að í mörgum merkum málum hafa ekki endilega svo margir talað. Ekki er þar með sagt að mál séu þess eðlis að ekki eigi að taka þau alvarlega og jafnvel hafa áhuga á að ræða þau eins og hér er gert. Hann nefndi að enginn í Sjálfstæðisflokknum hefði áhuga á því að ræða þetta mál og fann ég mig því knúna til að standa upp og segja örfá orð.

Mér þótti líka lítillæti af hv. þm. Atla Gíslasyni að segja að allt hefði komið fram í þessu máli sem hefði þurft að koma fram. Það sé nóg fyrir okkur að lesa þingræðurnar, lesa ræður hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Ögmundar Jónassonar, og þá þyrfti ekki að bæta miklu við. Mér þótti þingmaðurinn gera heldur lítið úr sinni eigin þekkingu á málinu, sem ég hygg að sé töluverð.

Mig langar að benda á eina setningu í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu hjá hv. þm. Pétri Blöndal, þar sem segir að málið hafi ekki hlotið afgreiðslu vegna þess að ekki hafi verið hægt að fá álit sérfræðinga eins og nefndin hafði óskað eftir. Í þessu samhengi vil ég benda á að mikilvægt er að þingmenn leggi sjálfir fram sín hugsjónamál, mál sem þeir vilja að nái fram að ganga og vilja að rætt verði um. Ég vil einnig leggja áherslu á að alþingismönnum sé tryggð sú vinnuaðstaða að geta fengið sérfræðiálit eða haft sérfræðinga á sínum snærum til að fara (Forseti hringir.) yfir mál þegar svo háttar.