135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:34]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega hjartanlega sammála flestu því sem hv. þm. Ólöf Nordal flutti hér. Ég verð að segja alveg eins og er, ég veit ekki hvað hefur komið fyrir mig.

Ég rakti það að á köflum hefðu fáir talað en það hefur kannski ekki komist nógu vel til skila að stundum urðu mjög fjörugar umræður. Margir aðrir tóku til máls um frumvarpið. Ég vísa í það til að lengja ekki ræðutímann hér á þingi. Ég get reyndar upplýst að ég ætlaði að vera á fundi klukkan fimm en mér fannst málið það mikilsvert að ég ákvað að vera hér.

Það vekur hins vegar athygli mína að ekki skuli fleiri en ég standa upp og flytja ræður, skarpar, greinargóðar ræður, þar sem vikið er að öllum þáttum þessa máls og það skoðað í heildarsamhengi. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Ólöfu Nordal um það að ekki er nógu vel búið að okkur þingmönnum sem höfum hugsjónir eins og hv. þm. Pétur Blöndal. Það skortir aðstoð. Ég bý að því að vera lögfróður og kunna fleira en ég hugsa til fólks sem vinnur í allt öðrum starfsgreinum. Það hefur ekki færni til að semja lagafrumvörp þó að það hafi færni á sínu sviði, geti sett hugsanir á blað og ég veit ekki hvað. En ég tek undir það að þingið þarf að skapa okkur betri aðbúnað.

Ég hef stundum talað um að þingið væri ekki annað en lagaafgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Það hljómar kannski kunnuglega en við erum það allt of mikið. Við erum allt of mikið að afgreiða frumvörp frá framkvæmdarvaldinu, síðast bráðabirgðalög með atkvæðagreiðslu í dag. Ég hefði gjarnan kosið að sjá frekari aðstoð og ég tala nú ekki um aðstoð við landsbyggðarþingmenn sem er að mínu mati í skötulíki.