135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi var 15. mars 2003 samþykkt á Alþingi þingsályktun um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu. Þáverandi forsætisráðherra fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra að annast framkvæmd þingsályktunarinnar og var ákveðið að Byggðastofnun skipaði nefnd til að gera tillögur um hvernig markmiðum þingsályktunarinnar yrði náð. Nefndin skilaði tillögum sínum til Byggðastofnunar í ágúst 2004. Voru þær í framhaldinu kynntar fyrir ráðherra.

Á þeim tíma var það mat iðnaðarráðuneytisins að sumar tillögur nefndarinnar yrðu erfiðar í framkvæmd þar sem þær gætu gefið fordæmi gagnvart öðrum sem erfitt væri að fást við. Margar byggðir landsins gætu t.d. vísað til sambærilegrar sérstöðu sem kallaði á svipuð inngrip og ríkisstyrki og nefndin gerði tillögu um að Árneshreppur nyti. Aðrar tillögur voru auðveldari viðfangs. Þar má nefna betrumbætur á vegasambandi og gerð úttektar á framboði á ferðaþjónustu í Árneshreppi og þörfum ferðamanna sem heimsækja Árneshrepp. Að framkvæmd þeirra tillagna hefur verið unnið. Þá var með tillögu nefndarinnar búið að draga fram sérkenni Árneshrepps með afgerandi hætti sem síðan hefur verið vísað til, t.d. á vettvangi fjárlaganefndar Alþingis og iðnaðarráðuneytisins. Ábendingar nefndarinnar hafa því í tímans rás orðið dreifbýlustu héruðum landsins til góðs þótt það hafi orðið með eilítið öðrum hætti en nefndin gerði tillögur um.

Starf og tillögur nefndarinnar komu til umfjöllunar á Alþingi þann 17. nóvember 2004 þegar þáverandi forsætisráðherra svaraði fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar um hvað liði störfum fyrrgreindrar nefndar og þá kom fram í máli forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun vinna áfram að þessu máli, fara yfir framkomnar tillögur og leggja mat á hvernig stjórnvöld geti stuðlað að því að gera búsetu í Árneshreppi bæði auðveldari og eftirsóknarverðari en nú er.“

Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppbyggingu svokallaðs Strandavegar sem liggur frá botni Steingrímsfjarðar allt norður til Norðurfjarðar í Árneshreppi. Á næsta ári verður varið tæpum 100 millj. kr. til þeirra framkvæmda og verður þá uppbyggður vegur kominn norður fyrir Kaldbak. Á árunum 2009–2010 verður 60 millj. kr. varið til uppbyggingar vegar yfir Veiðileysuháls. Sú samgöngubót mun gagnast íbúum Árneshrepps verulega.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2007 var samþykkt að veita 5 millj. kr. til Árneshrepps og lá þar m.a. til grundvallar fyrrnefnd greinargerð nefndarinnar um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi. Þessa fjárveitingu er að finna undir liðnum Nýsköpun og markaðsmál hjá iðnaðarráðuneyti og mun ráðuneytið gera samning við Árneshrepp um ráðstöfun fjárins þegar áætlun hreppsins um fyrirhuguð verkefni liggur fyrir. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vinnur með sveitarfélaginu að útfærslu verkefna og hefur sveitarfélagið sett á fót verkstjórn í þeim tilgangi og hyggst ráða til sín verkefnisstjóra. Verkefnin munu einkum snúa að eflingu ferðaþjónustu en ferðamönnum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum til að mynda fyrir tilstuðlan fyrirtækisins Hornstrandaferða.

Hef ég þá svarað fyrirspurn hv. þingmanns.