135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:57]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er gjörsamlega gáttuð á því að það skuli vera skoðun hæstv. forsætisráðherra að Ísland eigi áfram að gera sér það til skammar að fara fram á þessa undanþágu. Er það ekki yfirlýst stefna hæstv. umhverfisráðherra í það minnsta að Ísland eigi að sýna ábyrgð í loftslagsmálum? Við erum núna fyrir ofan Evrópumeðaltal í losun gróðurhúsalofttegunda og stefnum á að fara enn hærra, ætlum greinilega að fara að keppa við Ameríkumenn um að vera heimsmeistarar í þessum efnum. Er það virkilega sannfæring hæstv. forsætisráðherra að halda áfram á þessari ömurlegu braut þegar við blasir að eitt stærsta og brýnasta verkefni alls heimsins, og þar sem við ættum að vera í forustuhlutverki, er einmitt að minnka og draga af öllum mætti (Forseti hringir.) úr losun gróðurhúsalofttegunda og sýna mun meiri ábyrgð í umhverfismálum en við höfum gert hingað til.