135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með það sem kemur fram hjá hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin muni freista þess að fá aftur inn ákvæði sem er þá í líkingu við íslenska ákvæðið sem er í gildi í dag. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og ekki bara fyrir okkur Íslendinga. Það er nefnilega stóra málið, þetta skiptir máli fyrir alla. Við erum bara með einn lofthjúp og það er þess vegna sem við fengum íslenska ákvæðið í gegn að aðrir skildu það.

Ég vil vegna orða þingmanna Vinstri grænna segja að formaður þeirra, Steingrímur J. Sigfússon, lét þau orð falla á Norðurlandaráðsþingi að það megi vissulega segja að það sé gott fyrir loftslagið að ál sé framleitt á Íslandi. Þetta sagði formaður Vinstri grænna. Hann er a.m.k. búinn að átta sig á þessu. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég verð þó að benda á að það virðist vera ágreiningur um þetta mál á milli ríkisstjórnarflokkanna eins og svo mörg önnur mál því að hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að ekki verði sóst eftir neinum undanþágum. Og miðað við það sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra á Norðulandaráðsþinginu, að þetta hefði ekki verið rætt, þá finnst mér dálítið einkennilegt að svona stórt mál sé ekki rætt í ríkisstjórn eða á milli ríkisstjórnarflokkanna því að það styttist í næsta fund um þetta mikilvæga málefni á Balí og þótt þar verði ekki teknar neinar endanlegar ákvarðanir þá skiptir það máli líka vegna allrar þeirrar undirbúningsvinnu sem þarf að eiga sér stað af hálfu embættismanna. En það eru vissulega góðar fréttir að forsætisráðherra er þessarar skoðunar og nú treysti ég á það að ríkisstjórnarflokkarnir reyni að fara að tala saman. Þeir hafa ákveðið að hafa ekki neitt um þetta í stjórnarsáttmálanum, það er ekki hægt að segja annað en að það séu loðin ákvæði um umhverfismál þar og reyndar er ekki minnst á iðnað í stjórnarsáttmálanum, ekki einu orði. Hann er því eins og óhreinu börnin hennar Evu, (Forseti hringir.) það má ekki tala um iðnað. En þetta er vissulega spor í rétta átt.